2.8 C
Selfoss
Home Fréttir Kynlíf í kjölfar ofbeldis – opinn fyrirlestur í FSU í boði Soroptimista

Kynlíf í kjölfar ofbeldis – opinn fyrirlestur í FSU í boði Soroptimista

0
Kynlíf í kjölfar ofbeldis – opinn fyrirlestur í FSU í boði Soroptimista
Thelma Ásdísardóttir.

Kynbundið og kynferðislegt ofbeldi og áreiti er útbreitt mein í okkar samfélagi. Talið er að allt að fjórða hver kona og tíundi hver karlmaður hafi upplifað það í einhverri mynd á ævinni. Áhrif þess til langs tíma eru alvarleg og erfið viðureignar. Einna viðkvæmast er að glíma við áhrif þess á sjálfsmynd og sjálfsmat en auk þess er vitað að afleiðingar þess fyrir kynlíf viðkomandi fórnarlamba geta verið djúptækar og langvinnar.

Þetta verður umfjöllunarefni Thelmu Ásdísardóttur frá Drekaslóð í opinberum fyrirlestri sem haldinn verður miðvikudaginn 3. apríl nk. kl. 20 í Fjölbrautaskóla Suðurlands. Fyrirlesturinn er í boði Soroptimistaklúbbs Suðurlands og er öllum opinn endurgjaldslaust.

Thelma Ásdísardóttir er einn stofnenda Drekaslóða, en Drekaslóð eru samtök sem aðstoða þolendur hvers konar ofbeldis. Frá því samtökin voru stofnuð árið 2010 hafa þúsundir fórnarlamba ofbeldis af báðum kynjum notið aðstoðar þeirra.

Soroptimistaklúbbur Suðurlands er hluti af alþjóðlegri hreyfingu soroptimista sem beita sér í þágu kvenna og stúlkna um heim allan, leitast við að bæta lífskjör þeirra, sinna fræðslustarfi og veita konum og stúlkum hvatningu til að taka forystu jafnt í nærsamfélagi sínu sem á alþjóðlegum vettvangi.

F.h. Soroptimistaklúbbs Suðurlands
Katrín Ósk Þorgeirsdóttir formaður