-5.2 C
Selfoss
Home Fréttir Dagdvalir Árborgar – Vinaminni og Árblik

Dagdvalir Árborgar – Vinaminni og Árblik

0
Dagdvalir Árborgar – Vinaminni og Árblik
Ragnheiður Kristín Björnsdóttir.

Mikilvægur þáttur í að stuðla að ánægjulegu ævikvöldi er að koma til móts við þarfir einstaklinganna sem í samfélaginu búa. Sveitarfélagið Árborg rekur tvær dagdvalir með það að markmiði að mæta misjöfnum þörfum aldraðra og einstaklinga með heilabilunarsjúkdóma sem búa heima. Dagdvalarúrræði er jákvætt fyrir þá sem dagdvalirnar sækja og léttir undir með aðstandendum sem oft eru líka umönnunaraðilar. Með viðveru í dagdvöl, sem getur verið frá einum degi uppí fimm daga vikunnar er ætlunin að rjúfa félagslega einangrun og stuðla að því að aldraðir og einstaklingar með heilabilunarsjúkdóma geti búið lengur heima. Daggjaldið er 1.217 kr. og innifalið í gjaldinu er akstur í og úr dagdvöl, morgunmatur, hádegismatur, kaffi og meðlæti. Í Árbliki er leyfi fyrir 16 manns á dag og í Vinaminni er leyfi fyrir 15 manns á dag. Vonir standa til að leyfum í Árbliki verði fjölgað því húsnæðið þolir það vel.

Árblik – almenn dagdvöl fyrir eldri borgara
Dagdvölin Árblik flutti starfsemi sína í nýtt húsnæði að Austuvegi 51, Selfossi þann 7. desember 2018 en dagdvölin hefur verið starfsrækt frá því árið 2000. Húsnæðið sem eru tæpir 500fm var hannað með þjónustuna í huga er það mjög vel heppnað, bjart, með svalir til suðurs og útsýni í flestar áttir en dagdvölin er á 2. hæð í lyftuhúsnæði. Í dagdvölinni er boðið uppá stólaleikfimi, lestur framhaldssögu, gönguferðir, aðstoð við að nota styrktartæki, heita bakstra, fótabað, aðstoð í bað, slökun, að spila, bingó og boccia, svo eitthvað sé nefnt, og síðast en ekki síst spjall og nærveru. Það er ávallt val hvers og eins hvað hann vill gera. Hver og einn fær sinn persónulega tengil að leita til og vonum við að sú nýjung verði til að auka öryggiskennd og vellíðan notendanna.

Vinaminni – sérhæfð dagdvöl fyrir fólk með heilabilunar- og skylda sjúkdóma
Vinaminni er til húsa að Vallholti 38, Selfossi í góðu og grónu hverfi og tók það til starfa árið 2009. Vinaminni er notalegt heimili þar sem allir starfsmenn leggja sitt af mörkum til þess að mæta sem best þörfum þeirra sem sækja dagdvölina og oft er glatt á hjalla. Fastir liðir eru m.a. morgunleikfimi, göngutúrar, lestur framhaldsögu og blaða. Boðið er uppá sundferðir og oftar en ekki er boðið uppá dekur eins og fótabað og snyrtingu. Einnig er í boði að sinna árstíðabundnum verkum í garðinum eða aðstoða matráðinn, t.d baka flatkökur og kleinur. Allt miðar þetta að því að viðhalda færni notendanna, draga úr vanlíðan og vanmáttakennd. Þjónustuna nýta sér einstaklingar í Árborg og í nágrannasveitafélögunum vegna sérstöðu dagdvalarinnar sem sérhæfð dagdvöl.

Fastar uppákomur beggja dagdvalanna eru mánaðarlegar heimsóknir í Selfosskirkju einnig koma prestarnir okkar í heimsókn til okkar. Farnar eru vorferðir, á jólahlaðborð, haldin þorrablót og góðir gestir koma í heimsókn. Góð samvinna er við hjúkrunarfræðinga Heilbrigðistofnunar Suðurlands og á Minnismóttöku Landakots. Einnig er boðið uppá blóðþrýstings-og sykurmælingu ef þörf er á.

Ef þú eða ástvinur þinn geta nýtt sér þjónustuna er velkomið að heyra í okkur í dagdvölunum, ræða málin og skoða aðstöðuna. Nánir upplýsingar eru hjá Ragnheiði í síma 482 3361 (Vinaminni og Árblik) og Ingileif í síma 482 1290 (Vinaminni). Umsóknir í dagdvöl liggja frammi í dagdvölunum, á heimasíðu Árborgar og í Ráðhúsinu 2. hæð.

Kær kveðja
Ragnheiður Kristín Björnsdóttir, forstöðumaður dagdavala hjá Sveitarfélaginu Árborg