-0.5 C
Selfoss
Home Fréttir Bláskógabyggð leggst alfarið gegn áformum um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu

Bláskógabyggð leggst alfarið gegn áformum um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu

0
Bláskógabyggð leggst alfarið gegn áformum um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu
Aratunga í Reykholti.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar bókaði eftirfarandi á fundi sínum vegna hugmynda um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu:

„Lagt var fram minnisblað sveitarstjóra Húnavatnshrepps, ásamt bókun sveitarstjórnar Húnavatnshrepps. Málið var áður tekið fyrir á 226. fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar, liður 28.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar fagnar innkomnu erindi Húnavatnshrepps og tekur heilshugar undir þau sjónarmið sem þar koma fram.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar leggst alfarið gegn áformum um stofnun miðhálendisþjóðgarðs sem kynnt hafa verið sveitarfélögum á umliðnum vikum. Nefnd sem skipuð var af umhverfis- og auðlindaráðherra á vordögum 2018 hefur það hlutverk að vinna að tillögum um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu, en hvorki að meta eða gera tillögu um hvort stofna skuli slíkan þjóðgarð, né heldur að meta kosti og galla slíkrar stofnunar. Samráð um þann grundvallarþátt málsins, hvort stofna skuli þjóðgarð á miðhálendinu, hefur ekki átt sér stað.

Stofnun þjóðgarðs hefur óhjákvæmilega í för með sér að skipulagsvald sveitarfélaga skerðist. Lagaramminn um þjóðgarða er þess eðlis að verulegur hluti skipulagsvalds er færður frá sveitarstjórnum með stjórnunar- og verndaráætlunum sem binda hendur sveitarstjórna þegar m.a. kemur að ákvörðunum um landnýtingu, mannvirkjagerð, samgöngur og aðra innviði. Allir þeir meginþættir sem felast í skipulagsvaldi eru því færðir frá sveitarfélögunum.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar telur ekki ásættanlegt að stjórn og umráð yfir 40% Íslands verði í höndum fárra aðila. Stöðugt er vegið að sjálfstæði landsbyggðarsveitarfélaga og þeim ekki treyst fyrir því landsvæði sem er innan þeirra sveitarfélagsmarka.

Í ljósi þeirrar reynslu sem komin er á rekstur þjóðgarða á Íslandi má glöggt sjá að mjög víða er pottur brotinn t.d. í viðhaldi vega, fráveitumálum og merkingum svo eitthvað sé nefnt. Ljóst er að mörg stór verkefni sem útheimta mikið fjármagn bíða framkvæmda í þjóðgörðum landsins. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar fær ekki séð hvernig ríkinu ætlar að takast að halda utanum, sinna og fjármagna, öll þau stóru verkefni sem munu bætast við verði miðhálendisþjóðgarður að veruleika. Allvíða á hálendinu þar sem ekki eru þjóðgarðar er þegar mjög vel haldið á málum. Þar hafa verkefni verið unnin í samvinnu sveitarfélaga og heimamanna með mikilli sjálfboðavinnu fyrir lítið fjármagn. Verði miðhálendisþjóðgarður að veruleika má búast við að heimamenn dragi sig til hlés. Gera má ráð fyrir að öll sú vinna og fjármagn sem heimafólk hefur lagt til hálendisins muni færast yfir til ríkisins. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar hefur miklar áhyggjur af því að þau svæði á hálendinu þar sem vel hefur verið haldið á málum er varðar viðhald og uppbyggingu verði aftarlega í röðinni þegar kemur að úthlutun fjármagns til svæða í fyrirhuguðum þjóðgarði. Í ljósi reynslunnar telur sveitarstjórn að þá muni þeim eignum sem áður voru í eigu og umsjá viðkomandi sveitarfélaga ekki verða viðhaldið og að endingu lokað. Á það bæði við um húsbyggingar og vegslóða eins og dæmi eru um í Vatnajökulsþjóðgarði.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar vill benda á umsögn Sveitarfélagsins Hornafjarðar sem birtist í samráðsgáttinni 21. des. 2018 vegna vinnu við fyrirhugaða stofnun miðhálendisþjóðgarðs. Í niðurlagi umsagnarinnar segir: „mikilvægt er að tryggja þjóðgörðum sem fyrir eru í landinu rekstrargrundvöll áður en lögð er áhersla á að stofna nýjan þjóðgarð“.

Helstu rök sem borin hafa verið á borð fyrir sveitarstjórnarfólk á fundum með miðhálendisnefndinni eru að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að stofna þjóðgarðinn. Orðið þjóðgarður sé vörumerki sem laði að sér ferðamenn, þeim fylgi kröfur um aukið aðgengi og bætta þjónustu og þ.a.l. meiri mengun og ágangur á náttúruna sem þurfi að vernda. Í þessu liggja þversagnir.

Að endingu vill sveitarstjórn vekja athygli ríkisstjórnarinnar á því að mörg mikilvæg verkefni kalla á athygli og aukið fjármagn og eru mun brýnni hagsmunamál náttúru og þjóðar en stofnun miðhálendisþjóðgarðs.“