-8.9 C
Selfoss
Home Fréttir Uppskriftir í veiðkofann

Uppskriftir í veiðkofann

0
Uppskriftir í veiðkofann
Valgerður Pálsdóttir.

Sunnlenski matgæðingurinn þessa vikuna er Valgerður Pálsdóttir.

Já, þetta er loksins að gerast, ég fæ að láta ljós mitt skína og fæ að vera matgæðingur þessa vikuna, þvílíkur heiður. Mér finnst alveg tilvalið að gæða mér á Moscow mule meðan ég skrái niður uppskriftirnar handa lesendum, því það er alveg á kristaltæru að ég á nóg af engiferi til að bragðbæta heilsudjúsinn frá henni Þórhildi minni.
En að máli málanna; uppskriftir eru alls ekki mín sterkasta hlið og ég er alveg afleit í því að fylgja uppskriftum (og ég vona að lesendur fyrirgefi mér það ef hlutföll eru ekki rétt). Ég fer yfirleitt eftir tilfinningunni og reyni bara að gera gott úr því sem ég hef. En aðal uppistaðan í minni eldamennsku er fyrsta flokks íslenskt hráefni og þá getur maturinn bara ekki klikkað.
Þar sem sumarið er rétt handan við hornið og öll veiðileyfi fara að detta í hús þá langar mig að hafa sumarlegt þema og gefa ykkur uppskriftir af því sem ég elda nánast alltaf í útilegum eða veiðikofum víðsvegar um Suðurlandið mitt fagra.

Forréttur
Brúsjettur á grillinu

Hráefni:
Brauð eftir smekk (oftast nota ég einhverskonar sveitabrauð en hægt er að nota allt nema samlokubrauð)
4 íslenskir kaldir safaríkir tómatar
1/2 rauðlaukur
hvítlauksolía
parmesan
íslenskt klettasalat

Aðferð:
Hitið ferða-Weberinn í botn.
Saxið tómatana og rauðlaukinn smátt í skál. Penslið brauðsneiðarnar báðum megin með hvítlauksolíunni, því meira því betra.
Grillið brauðið á Webernum þangað til það verður gyllt og stökkt.
Raðið brauðsneiðunum á platta og setjið tómatsaxið í hæfilegum skömmtum á sneiðarnar. Rífið slatta af parmesan yfir allt saman og setjið að lokum klettasalatið ofan á eftir smekk.
Þessu er svo skolað niður með drykk að eigin vali en ég mæli með ísköldu kóki eða hæfilega köldum lager.

Aðalréttur:
Laxaborgarar
Þegar ég veiði fjögurra til fimm punda laxa titti þá finnst mér alveg upplagt að skella öðru flakinu í borgara og hitt heilgrilla ég.

Hráefni:
ca 600 gr. roðlaus og beinlaus lax eða sjóbirtingur
smá sítrónusafi
1/2 hvítlaukur
2-3 vorlaukar
1 ferskt chilli
salt og pipar eftir smekk
smá Cheyenne pipar
4 hristur af fiskikryddi (ég nota frá Knorr)
2 msk. haframjöl
Smá hveiti eða kartöflumjöl til að binda „deigið“ saman.
Hamborgarabrauð
Kál
Hvítlaukssósa frá Bónus
Rauðlaukur
Kartöflubátar frá Þykkvabæ

Aðferð:
Hitið grillið í ca 200°C
Ég bý svo vel að eiga matvinnsluvél og skelli þessu öllu í hana og byrja á því að setja laukana, svo chillíið og sítrónusafann.
Skerið fiskinn í grófa bita og skellið í vélina, síðan set ég kryddið og haframjölið. Ég smakka þetta bara til og krydda aðeins meira ef það þarf. Að lokum set ég smá hveiti eða kartöflumjöl ef þetta er mjög laust í sér.
Því næst útbý ég hamborgarann, en ég byrja á því að hnoða þessu talsvert þétt í kúlu og flet þetta svo út.
Svo er bara að labba með þetta út á grillið og grilla, en borgararnir eru tilbúnir eftir ca. 15-20 mín. en það fer eftir stærð.
Síðan set ég hvítlaukssósu á grillaða hamborgarabrauðið ásamt káli og ferskum rauðlauk.
Borið fram með kartöflubátum og/eða fersku salati. Þessu er svo skolað niður með drykk að eigin vali.

Eftirréttur:
Grillað Doritos

Hráefni:
1 poki svartur Doritos
salsa sósa
ostasósa frá Santa Maria
rifinn ostur
jalapeño
rauðlaukur

Aðferð:
Byrja á því að fíra Weberinn alveg í botn.
Ég set heilan poka af Doritosi á grillbakka.
Skelli svo salsa sósu og ostasósu víðsvegar yfir allt Doritos-fjallið.
Fínsaxa rauðlauk og jalapeño og dreifi yfir.
Set svo rifinn ost yfir allt, en ekki of mikið, þá nær osturinn ekki að bráðna almennilega.
Nú er svo lykilatriðið og það er að lækka alveg í grillinu og læða grillbakkanum inn á grillið, alls ekki opna grillið alveg því við viljum hafa heitt innan í grillinu. Þessu er svo leyft að vera í ca 10 mín. eða þar til Doritosið er orðið aðeins svart í endana og osturinn vel bráðinn.

Þessu er best að skola niður með köldum 1664 White ale sem er fullkominn drykkur á mildu sumarkvöldi, en honum verður að hella í glas.

Ég vona að þessar uppskriftir fái ykkur til að hlakka til sumarsins og vonandi verður sumarið ykkur gjafmilt og gott.
Takk fyrir mig.

Ég ætlaði upphaflega að skora á Hiddý mína en þar sem hún hefur hótað mér illri meðferð á samfélagsmiðlum ef ég geri það, þá hef ég ákveðið að launa Jóni Þór mági mínum greiðann góða þarna um árið og skora á hann að koma með eitthvað girnilegt. En hann Jón Þór er algjör snillingur í eldhúsinu og ég veit fátt betra en að fylgjast með fagmannlegum handbrögðum hans í matargerð.