-1.1 C
Selfoss
Home Fréttir Tækifæri í framhaldi af úttekt á rekstri og stjórnsýslu Árborgar

Tækifæri í framhaldi af úttekt á rekstri og stjórnsýslu Árborgar

0
Tækifæri í framhaldi af úttekt á rekstri og stjórnsýslu Árborgar
Guðmundur Ármann Pétursson.

Það var skynsöm ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar að staldra við og láta gera úttekt á rekstri og stjórnsýslu sveitarfélagsins. Það sést glöggt á lestri skýrslunnar að vandað var til verka. Á borðinu eru 132 tillögur sem geta gert þjónustuna betri og reksturinn hagkvæmari.

Meðal atriða er að hvatt er til rafrænnar stjórnsýslu og bent á mikilvægi staðsetningar mismunandi þjónustuþátta sveitarfélagsins s.s. að þjónustver verði staðsett á fyrstu hæð Ráðhússins og skrifstofurými opin.

Staðsetning skiptir máli og við þá vinnu sem nú á sér stað varðandi mat og innleiðingu á þeim tillögum sem lagðar hafa verið fram er mikilvægt að huga að staðsetningu.

Forsvarsmenn Árborgar hafa sótt það fast þegar kemur að flutningi ríkisstofnana á landsbyggðina að ríkisstofnanir verði staðsettar á Selfossi. Nú þurfa forsvarsmenn sveitarfélagsins að vera tilbúnir til að horfa inn á við.

Spurningin í dag er; Hvernig getur sveitarfélagið best staðsett stofnanir sínar innan Árborgar?

Stofnanir sveitarfélagsins og þjónustusvið eiga að geta veitt góða þjónustu og stutt við mismunandi svæði samfélagsins með staðsetningu sinni.

Það er mjög æskilegt að þegar unnið verður úr þeim tillögum sem liggja á borðinu að horft verði til þess að með rafrænni stjórnsýslu, breyttu vinnufyrirkomulagi, öflugu netsambandi, bættum almenningssamgöngum, hjóla- og göngustígum að þá eru ný tækifæri til staðsetningar.

Nú er til dæmis tækifæri til þess að staðsetja þjónustuþætti, stofnanir og störf við ströndina. Frumkvæði sveitarfélagsins við að færa störf á Eyrarbakka og Stokkseyri mun auðvelda frekari uppbyggingu og hjálpa til við að gera samfélögin þar að enn betri búsetukosti. Árborg allri til heilla.

Guðmundur Ármann Pétursson, íbúi á Eyrarbakka