3.9 C
Selfoss
Home Fréttir Til hagsbóta fyrir íbúa

Til hagsbóta fyrir íbúa

0
Til hagsbóta fyrir íbúa
Eggert Valur Guðmundsson.

Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Árborgar hefur nú samþykkt breytingar á stjórnskipan sveitarfélagsins, markmið þeirra breytinga sem gerðar hafa verið er að laga stjórnsýslu sveitarfélagsins að breyttum tímum og ná fram aukinni skilvirkni til hagsbóta fyrir íbúana. Á undanförnum árum hefur íbúum sveitarfélagsins fjölgað svo mikið að óhjákvæmilegt var að endurskipuleggja reksturinn og leita leiða til þess að þjónustan við íbúana verði í framtíðinni eins og best gerist. Þær breytingar sem bæjarstjórn hefur nú staðfest, eru byggðar að hluta til á tillögum Haraldar L. Haraldssonar hagfræðings sem fengin var til þess að vinna úttekt á stjórnsýslu,rekstri og fjármálum sveitarfélagsins. Helstu markmið með breytingunum er að einfalda stjórnsýsluna í þeim eina tilgangi að bæta þjónustuna við íbúana. Það er t.d. gert með því að koma á móts við kröfur um betri þjónustu í stjórnkerfinu, rafræna stjórnsýslu, öflugri mannauðsstjórnun og betri rekstur. Það er von okkar að hagræðing í rekstrinum skapi aukin tækifæri til að veita íbúunum betri þjónustu , sem ekki hefur staðið til boða til þessa án aukinna fjárútláta. Gamla stjórnskipulagið sem var í gildi er í aðalatriðum frá árinu 2010. Það sjá auðvitað allir sem vilja sjá að gríðarlega margt hefur breyst frá þeim tíma, bæði hvað varðar aukin og fleiri verkefni samhliða fjölgun íbúa og margvíslega þætti í rekstri sveitarfélagsins. Það var því óhjákvæmilegt fyrir bæjaryfirvöld að bregðast við þessum nýja veruleika, þó að það hafi verið mikil vonbrigði að bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins treystu sér ekki til þess að styðja þær breytingar sem lagðar voru til.

Höldum rétt á spilunum

Sveitarfélagið stendur núna frammi fyrir mikilli fjárfestingarþörf, m.a. vegna mikillar íbúafjölgunar, en nauðsynleg uppbygging á innviðum og viðhaldi eigna er sveitarfélögum nauðsynleg. Slíkum fjárútlátum verður ekki komist undan og er niðurskurður þeirra í flestum tilfellum einungis frestun á útgjöldum. Undanfarin ár hefur fjárfesting og uppbygging ekki verið í takt við stækkun sveitarfélagsins, slík frestun er ekki valkostur til lengri tíma og afar brýnt að stöðva áframhaldandi stöðnun og samdrátt í nauðsynlegum fjárfestingum. Í ljósi þess hve nauðsynleg verkefni eru framundan á næstu árum er ljóst að aukin skuldsetning sveitarfélagsins er óhjákvæmanleg. Í framhaldinu mun staðan lagast því á næstu árum er gert ráð fyrir að reksturinn muni standa undir þeim fjárfestingum sem stefnan er að ráðast í. Meirihluti bæjarstjórnar hefur sett sér raunhæf markmið um þau fjárfestingarverkefni sem ráðist verður í á þessu kjörtímabili. Því miður náðist ekki samstaða í bæjarstjórn um þá uppbyggingu sem verður að fara í á næstu árum. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins voru ekki tilbúnir til þess að axla ábyrgð á þeim framkvæmdum sem nauðsynlegar eru á næstu árum og greiddu atkvæði á móti. Ekki komu frá þeim í þetta sinn aðrar lausnir eða leiðir en þær sem meirihlutinn lagði fram. Það er sjálfsagt og eðlilegt að það séu skiptar skoðanir um forgangsröðun verkefna, og gagnrýnin umræða er þörf en hún verður að vera byggð á málefnalegum rökum. Ef rétt er haldið á spilunum er framtíðin björt í Sveitarfélaginu Árborg.

Eggert Valur Guðmundsson, formaður bæjarráðs Árborgar.