-1.1 C
Selfoss

Vökvainntaka aldraðra

Vinsælast

Bjarnheiður Hauksdóttir.

Áhættuþættir og orsakir þurrks
Það er þekkt staðreynd að eldra fólk er oft ekki duglegt að drekka vatn. Oft er það vegna þess að aldraðir finna ekki lengur fyrir þorstatilfinningu eins og við sem yngri erum. Það stafar yfirleitt af því að nýrnastarfsemi aldraðra breytist með aldrinum.
Sjúkdómar eins og heilabilunarsjúkdómar og fleiri líkamlegir sjúkdómar geta einnig haft þau áhrif að viðkomandi drekkur minna og þarf á aðstoð að halda við að ná sér í drykki til að uppfylla vökvaþörf líkamans. Auk þess geta kyngingarerfiðleikar leitt til minnkaðrar vökvainntöku.
Eldra fólk, og þá sér í lagi eldri konur, þjáist oft af talsverðum þvagleka og grípa þá stundum til þess ráðs (meðvitað eða ómeðvitað) að draga úr vökvainntöku til að minnka óþægindin af þvaglekanum.

Einkenni og afleiðingar þurrks
Einkenni um þurrk er til dæmis munnþurrkur, hægðatregða, þurr húð, rugl eða óáttun, svimi og lækkaður blóðþrýstingur, auk þess sem þvag viðkomandi verður dökkt að lit og með sterka lykt. Aldraðir sem drekka ekki nóg fá oft þvagfærasýkingar. Veikindi eins og niðurgangur eða uppköst auka einnig hættuna á þurrki, því er mikilvægt að reyna að halda vökva að þeim sem eru með umgangspestir. Þetta gildir að sjálfsögðu líka um aðra aldurshópa en aldraðir eru sérstaklega viðkvæmir.

Hvernig má koma í veg fyrir þurrk
Oftast er hjálplegt að hvetja einstaklinginn eins og hægt er og bjóða honum reglulega aðstoð eða gefa honum reglulega að drekka vatn eða aðra vökva (t.d. te, aðra heita drykki eða safa einhvers konar). Ef hætta er á að einstaklingur drekki ekki nóg þá er gott að halda skráningu yfir vökvamagn sem drukkið er yfir sólahringinn. Athugið að reyna að hafa alltaf vatn eða aðra drykki staðsetta þannig að einstaklingurinn nái í þá hjálparlaust. Ef viðkomandi á erfitt með að kyngja er gott að nota þykkingarefni sem hægt er að fá í apótekum. Mörgum finnst líka auðveldara að drekka í gegnum rör.
Við Íslendingar erum svo heppnir að hafa góðan aðgang að hreinu, fersku vatni. Munum að nýta okkur það á hverjum degi !

F.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands
Bjarnheiður Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur á Fossheimum og Ljósheimum

Mynd:

(Bjarnheiður Hauksdóttir)

Nýjar fréttir