-0.5 C
Selfoss

Umhverfisfræðinemendur í ML á faraldsfæti

Vinsælast

Nemendur í fyrsta bekk N og F í Menntaskólanum að Laugarvatni fóru í fræðsluferð á dögunum til höfuðborgarsvæðiðisins og kynntu sér sorp- og endurvinnslumál.

Í Gámaþjónustunni tóku á móti hópnum starsfmenn sem vita allt um sorp. Ekið var í gegnum gámasvæðið hjá þeim, inn í risastóra skemmu og sáu nemendur hvernig allt ferlið við endurvinnslu fer fram. Magnað var að sjá alla staflana af flokkuðu plasti og pappír út um allt sem og að kynna sér þvílíka magnið af moltu sem unnin er á vegum Gámaþjónustunnar. Mikill metnaður var hjá starfsfólki Gámaþjónustunnar um að fræða hópinn sem mest og best um allt er snéri að flokkun á sorpi – eða hráefni eins og þeir kjósa að kalla það, því mikið af sorpi er hægt að selja í frekari endurvinnslu í erlendum endurvinnslustöðvum.

Næsta stopp var í Furu. Þar eru vörubretti hökkuð og búin til úr þeim spænir í undirburð sem nýtist í landbúnaði. Þar eru líka ónýtir bílar brytjaðir niður og efnin sem bílarnir eru gerðir úr flokkuð í sundur og seld í endurvinnslu, meðal annars til Asíu. Þessi staður var alveg magnaður, bílahakkavélin getur hakkað 42 bíla á klukkutíma og alveg sáralítið sem fer inn í hana kemur út sem sorp sem þarf að urða. Það er alveg magnað hversu mikið er hægt að endurvinna.

Að lokum var stoppað í Sorpu þar sem hópurinn fékk fræðslu um það hvernig endurvinnslu er háttað hjá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu og þar var líka ekið í gegnum flokkunarstöðina og fengu nemendurnir að kynnast því hvernig sorpflokkun fer fram.

Þessi ferð var með eindæmum fræðandi og það er virkilega gaman að koma heim með alla þessa vitneskju. Nemendur voru sjálfum sér og skólanum til mikils sóma.

Ragnhildur Sævarsdóttir kennari.

Nýjar fréttir