2 C
Selfoss

Nanna systir slær í gegn í Árnesi

Vinsælast

Leikdeild Ungmennafélags Gnúpverja slær í gegn enn eitt árið með frábærri skemmtun í Árnesi. Í þetta skiptið er það leikritið Nanna systir eftir Kjartan Ragnarsson og Einar Kárason, sem snertir hláturtaugar gesta í stórskemmtilegu leikhúsi, áhugahóps sem sannarlega kann sitt fag. Fjórða sýning var í Árnesi um helgina og enn eru nokkrar eftir.

Leikstjórinn Örn Arnarson nær að virkja leikarana þannig að þeir sýnast fæddir í hlutverk sín. Sægreifasysturnar í þorpinu eru svo sannfærandi í ríkidæmi sín, hroka, frekju og drykkjuskap að af ber. Presturinn Jens Skúli, konan með kristallana, skólastjórinn með smástelpuhneigðina og róttæki bátsmaðurinn sem þorir ekki á sjó … allt frábærir karakterar sem skilað er alla leið. Ung eiginkona skólastjórans og leikstjórabóheminn með palestínusjalið hefja sýninguna, þar sem verið er að velja í hlutverk í leikriti inn í leikritinu, en þátttakendur í sýningunni eru leikarar í litlu þorpi sem ætla að setja upp Fjalla-Eyvind.

Smá tíma tekur að átta sig á stefnunni sem leikritið tekur, en eftir að það skýrist er stígandinn jafn og hraður og hámarki er náð þegar síðustu persónurnar, bílstjórinn, kvótasystirin að sunnan og pólsk eiginkona bátsmannsins bætast í hópinn á sviðinu og gæða sýninguna enn meira lífi og fjöri. Karakterar sem fylla vel út í sviðið, þótt í aukahlutverkum séu. Pólsk/íslenskur framburður eiginkonu bátsmannsins er sérstaklega vel æfður, þar hefur þurft alvöru tungumálanámskeið.  Sviðsmyndin er sú sama allan tímann, en nóg er um að vera samt og mikið líf í leikmyndinni og oftar en ekki er fleira en eitt að gerast á sviðinu í einu.

Leikdeildin UMFG hefur verið mjög virk síðustu árin og sett upp sýningar á tveggja ára fresti. Dyggur leikhúsgestur sem lætur aldrei sýningu leikhópsins framhjá sér fara, telur sig sjá framfarir frá ári til árs hjá flestum leikurunum, sem leikið hafa með hópnum síðustu árin, frá því leikdeildin vaknaði af dvala árið 2010. Eitt af því sem batnar sérstaklega ár frá ári er framsögnin þar sem reyndustu leikararnir skila hverju orði skýrt í eyru leikhúsgesta. Nanna systir er góð skemmtun. Sá leikhúsgestur sem hér skrifar ætlar að fara aftur á sýninguna um næstu helgi og mælir með því að enginn láti hana framhjá sér fara.

Björg Eva Erlendsdóttir

 

Nýjar fréttir