3.9 C
Selfoss

Kjúklingaréttur eldaður á einni pönnu

Vinsælast

Matgæðingur vikunnar að þessu sinni er Kristján Jens Rúnarsson.

Ég vil byrja á að þakka Helga frænda mínum fyrir áskorunina og að sjálfsögðu skorast ég ekki undan. Mér þykir vissulega gaman að elda, sérstaklega þegar eitthvað stendur til og er þá oft allan daginn að dunda mér í eldhúsinu. Hvort gæði matarins fylgi áhuganum verða aðrir að dæma um en það gerist furðu sjaldan að við þurfum að panta pizzu eftir eldamennsku mína.

Ég á það þó sameiginlegt með Helga að ég styðst sjaldnast við uppskriftir og sjaldnast veit ég hvað ég ætla að gera með matinn þegar eldamennskan hefst, ég bara byrja og útkoman verður einhver. Og Helgi hefur rétt fyrir sér með það að pabbi minn er algjör meistarakokkur, sérstaklega þegar kemur að góðum og gildum heimilismat svokölluðum og það er ómetanlegt að geta slegið á þráðinn til hans með ráðleggingar þegar í óefni stefnir. Enda var hann mötuneytiskokkur í skólum í um 40 ár, þar á meðal í Sunnulækjarskóla.

En hvað um það, ég átti víst að koma með einhverja uppskrift og er mikið búinn að velta fyrir mér hvaða uppskrift ég ætti að henda hér fram, enda á ég fáar uppskriftir og sami réttur verður sjaldnast eins hjá mér í tvö skipti.

Ég ákvað samt að skella fram einfaldri, en góðri uppskrift af kjúklingarétti, sem er þeirrar gerðar að hann er hvort sem er hægt að hafa einan og sér, eða hafa með honum annað hvort hrísgrjón eða pasta ásamt góðu brauði. Og það besta við hann er að það er nóg að nota eina pönnu til að elda hann. En hér er a.m.k. gróf uppskrift að þessum rétti og með honum hef ég oftast blómkálsgrjón.

Hráefni fyrir ca. 4:
3 kjúklingabringur eða 4-5 úrbeinuð kjúklingalæri
Hálfur pakki Flúðasveppir
1 meðalstór broccolihaus
1 pakki beikon
2 greinar ferskt rósmarín eða timjan (mér þykir rósmarínið betra)
1 askja sveppasmurostur
1 teningur sveppakraftur
1 dl rjómi
Salt og pipar

Aðferð:
Skerið kjúklinginn í hæfilega bita og steikið á pönnu (mér finnst gott að krydda kjúklinginn með „gott á kjúklinginn” kryddinu).
Fjarlægið kjúklinginn af pönnunni þegar hann er tilbúinn og steikið beikonið. (Sonur minn segir að það sé ekki hægt að hafa of mikið beikon í þessum rétti).
Bætið sveppunum og broccoli á pönnuna og steikið í smá stund með beikoninu.
Bætið rjómanum á pönnuna ásamt sveppakraftinum og fáið upp suðu.
Lækkið svo hitann og bætið því næst smurostinum á pönnuna og bræðið hann rólega, Ef að hitinn er ekki of mikill þá á smurosturinn að vera nægur „þykkjari” fyrir sósuna.
Þegar smurosturinn er bráðinn, setjið þá kjúklinginn aftur út í ásamt rósmaríninu eða timjaninu og látið malla rólega í um 5–10 mínútur. Passið bara að smakka sósuna reglulega og taka kryddjurtirnar aftur úr áður en bragðið af þeim verður yfirgnæfandi. Saltið og piprið eftir smekk.
Berið svo fram eins og áður segir annað hvort með pasta eða grjónum og góðu brauði.
Ég ætla að setja hér inn uppskrift af blómkálsgrjónum sem ég nota oftast með þessu (ég fékk þessa uppskrift frá Gunnhildi Hjalta)

Hráefni:
1 stór blómkálshaus
100 gr. smjör
Salt og pipar.

Aðferð:
Hakkið blómkálið þannig að það verði á við stór hrísgrjón.
Brúnið smjör á pönnu við háan hita (brúnað smjör gefur mikið betra bragð en bráðið smjör).
Bætið blómkálinu í pönnuna og saltið og piprið eftir smekk.
Hafið á pönnunni þangað til blómkálið er temmmilega mjúkt

Það verður ekki hjá því komist að mæla með því við þá sem aldur hafa til að hafa ískalda Stella Artois með þessum rétti en hún er einmitt á sérstöku afmælistilboði í vínbúðunum um þessar mundir. Verði ykkur að góðu.

Að lokum langar mig til að skora á Þórhildi Hjaltadóttur að koma með einhverja uppskrift í næstu viku. Ef marka má snapchat hjá henni þá þykir henni ekkert leiðinlegt að gefa fólki gott að borða og hún ætti því ekki að vera í vandræðum með þetta.

Nýjar fréttir