-1.1 C
Selfoss
Home Fréttir Hvenær á að panta ofninn?

Hvenær á að panta ofninn?

0
Hvenær á að panta ofninn?
Valdimar Guðjónsson Flóahreppi.

Sorpmálin og úrgangur er vaxandi vandræðabarn hérlendis og ekki síst hér sunnanlands. Allt virðist í baklás svona utanfrá séð eftir að höfuðborgasvæðið sagði hingað og ekki lengra. Ekki tekið við meiru til urðunar við Álfsnes héðan úr Sunnlendingafjórðungi líkt og síðustu ár.

Hefur hugsanlega lítið upp á sig vangaveltur um hvers vegna sveitarfélögin á Suðurlandi eru í þessari stöðu, en skaðar varla.

Vandræðin hófust þegar loka varð snögglega fullbúnu, kostnaðarsömu, drenuðu og til þess hönnuðu urðunarsvæði við Kirkjuferju í Ölfusi sem hentaði mjög vel og var í fullri notkun. Óvenju djúpum jarðvegi, halla og verkfræðilega skipulagt samkvæmt ítrustu kröfum. Þá varð að slá heldur betur í klárinn, leggjast í enn meiri ferðalög og hefja akstur með tilheyrandi sótspori og snarauknum kostnaði íbúa við förgun. Yfir Hellisheiðina og gegnum hálft höfuðborgarsvæðið.

Þegar Flóahreppur tók ákvörðun um fulla flokkun sorps árið 2007 með þriggja tunnu kerfi – voru örfá sveitarfélög á landinu búin að stíga skrefið. Ég man eftir sameiginlegum fundi sunnlenskra sveitarfélaga um þessi mál. Áhugi var lítill en þó fjölgaði aðeins í verkefninu. Hefði skrefið verið stigið alla leið þá, hefði verið hægt að stórminnka það magn sem fór í plássfreka urðun á höfuðborgarsvæðinu.

Við vorum fús að miðla reynslu okkar hér í Flóanum. Skipti í fulla flokkun sem þá var á dagskrá ESB kringum árið 2020 (í óralangri framtíð að sumra mati) tók viku til tíu daga!

Allt gekk þetta hér með góðri fræðslu til íbúa og þátttaka var strax mjög góð. M.ö.o. íbúum (kjósendum) á fjölmennum svæðum og víðar var vorkennt þá, sú raun að standa í þessu veseni.

En nú er flokkun komin á flug og ástæðan er einföld, vandræði við förgun. Margir að vakna við vondan draum. Aðalatriðið er þó að þetta (flokkun sorps) er ekkert stórmál. Breytingin sjálf er það vissulega smátíma, en framkvæmdin til framtíðar ekki.

Að mínu mati þarf nú stórhug. Urðun plasts í jarðvegi er bull og hefur alltaf verið. Endurvinna þarf áfram það sem hægt er, en brenna afganginn í háhita ofnum. Stórminnka þar með umfangið. Títtnefnd orkuskipti eru margs konar. Að breyta orku plasts – aftur í orku hlýtur að geta fallið undir slíkt.

Síun útblásturs við brennslu er tæknilega möguleg og að því leyti ekkert að vanbúnaði.

Stofnkostnaður er eflaust mikill. Lausnin yrði vel að merkja til langrar framtíðar. Þarna þarf ríkið að koma að fjármögnun með sveitarfélögum, landshlutum eða landsfjórðungum. Ekki trúi ég að stæði á umhverfisráðherranum sem af minna tilefni kemur í á að giska þriðja hvern fréttatíma RÚV. Af mun minni tilefnum en sorpförgun, er tilstandið stundum líkt og Katla væri farin að gjósa.

Valdimar Guðjónsson, Gauðverjabæ, Flóahreppi.