-5.2 C
Selfoss

Ungmennabúðir UMFÍ flytja í íþróttamiðstöðina á Laugarvatni

Vinsælast

Á fimmtudaginn í síðustu viku skrifuðu Helgi Kjartansson, oddviti Bláskógabyggðar, og Haukur Valtýsson, formaður Ungmennafélags Íslands, undir samning um leigu á húsnæði og aðstöðu fyrir Ungmenna- og tómstundabúðir UMFÍ á Laugarvatni. Nú þegar er hafinn undirbúningur fyrir flutninga búðanna sem hafa verið á Laugum í Sælingsdal í rúman áratug. Fyrirhugað er að starfsemi ungmennabúðanna hefjist í haust en strax í sumar fer einhver starfsemi af stað í íþróttamiðstöðinni á Laugarvatni .

Starf ungmenna- og tómstundabúðanna felst í því að grunnskólanemendur í 9. bekk koma á Laugarvatn og dvelja þar í eina skólaviku. Þar taka nemendur þátt í skipulögðu starfi sem forsvarsmenn ungmennabúðanna sjá um. Á Laugarvatni geta þau notað þá glæsilegu íþróttaaðstöðu sem er í boði þ.e. sundlaug, íþróttahús og frjálsíþróttavöll. Þá er spennandi náttúra á Laugarvatni sem verður einnig notuð. Þar má m.a. nefna vatnið, fjallið, svæði skógræktarinnar og þau opnu svæði sem eru á Laugarvatni. Í ungmennabúðunum er lögð áhersla á félagslegaþáttinn m.a. með því að banna notkun síma, en ungmennin eiga frekar að nota frjálsa tímann sem gefst til að tala saman og eiga önnur eðlileg samskipti.

Mikil lyftistöng fyrir Laugarvatn
Helgi Kjartansson, oddviti Bláskógabyggðar, var spurður hvaða þýðingu það hefði fyrir Bláskógabyggð og samfélagið á Laugarvatni að fá þangað ungmennabúðir UMFÍ.

„Með komu ungmennabúðanna á Laugarvatn kemur mikið og heilbrigt líf í íþróttamiðstöðina sem er svo einkennandi fyrir staðinn. Ljóst er að um mikla lyftistöng er að ræða, ungmennabúðunum fylgja mörg störf, bæði bein og óbein. Bæjarbragurinn mun einkennast af enn meira lífi og hreyfingu, aðstaðan á svæðinu verður betur nýtt og starfsemin mun styrkja enn frekar Laugarvatn sem íþrótta- og heilsubæ. Þá myndast tækifæri fyrir íþrótta- og æfingahópa til að koma á Laugarvatn til að dvelja þar um helgar og yfir sumartímann við æfingar. Ég held að það sé vöntun á landinu að getað komist út á land og dvalið þar við æfingar og styrkt félagslega þáttinn.“

Helgi var jafnframt spurður hvort eitthvað annað sé fyrirhugað í tengslum við þessa starfsemi. „Það er ekki annað fyrirhugað hjá Bláskógabyggð í tengslum við þessa starfsemi. Okkar hlutverk verður að bæta og styrkja aðstöðuna sem fyrir er á svæðinu til að þessi starfsemi sem og önnur geti vaxið og dafnað. Nú er vinna við breytingu á deiliskipulagi þéttbýlisins að Laugarvatni að hefjast. Við munum taka inn í vinnuna að starfsemi UMFÍ sé komin á Laugarvatn með því að gera ráð fyrir að hún stækki, styrkist og dafni á efðilegan hátt.“

Helgi segir það draumi líkast að starfsemi ungmennabúðanna sé að koma á Laugarvatn. Stjórn UMFÍ hafi strax sýnt Laugarvatni áhuga þegar HÍ ákvað að hætta kennslu í íþrótta- og heilsufræði 2016. „Samskipti okkar og UMFÍ hafa verið mjög góð þennan tíma og eftir að við tókum við íþróttamannvirkjunum frá ríkinu haustið  2017 komst mikill skriður á okkar viðræður sem endaði með þeim samningi sem við undirrituðum á fimmtudaginn. Leigusamningurinn tryggir rekstrargrundvöll Bláskógabyggðar á eigninni. Samningurinn er til 10 ára og þá hefur UMFÍ forkaupsrétt á eigninni ef sveitarfélagið hyggst selja húsið. UMFÍ mun taka við húsinu í júní næstkomandi. Þessa dagana standa yfir miklar endurbætur á húsnæðinu þar sem aðallega er verið að skipta út gólfefnum, leggja hitalagnir, skipta út hurðum og uppfylla kröfur eftirlitsaðila. Það sýnir vel hversu góður andi og traust var í samningaferlinu við UMFÍ að nú er starfsfólk UMFÍ að hjálpa til við endurbæturnar. Það er til marks um það mikla traust, skilning og markmið beggja aðila  að vinna saman að verkefninu þannig að mikill sómi verði af húsnæðinu og allri starfssemi ungmennabúða UMFÍ á Laugarvatni.

Með samningnum er hægt að byggja starfsemina upp til langs tíma
Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, var spurður hvaða þýðingu það hefði fyrir UMFÍ að opna ungmenna- og tómstundabúðirnar á Laugarvatni.

„Þessi samningur á milli UMFÍ og Bláskógabyggðar hefur mikla þýðingu þar sem hann er til tíu ára. Með honum er hægt að byggja starfsemina upp með tilliti til þess tíma, en samningur okkar við Dalabyggð rennur út í vor. Ég tel að á Laugarvatni sé hægt að tengja búðirnar meira við áherslur okkar hreyfingar, koma okkar gildum enn betur að og m.a. hægt að nýta umhverfið í tengslum við starsemina,“ segir Haukur.

„Við höfum horft til þess að geta boðið íþrótta- og ungmennafélögum að nýta aðstöðuna fyrir ýmsa viðburði sem þau hafa áhuga á að standa að. Ungmennabúðirnar starfa alla virka daga yfir vetrartímann en um helgar og utan rekstartíma búðanna er stefnt að því að leigja aðstöðuna til hinna ýmsu hópa eða félaga innan okkar raða.“

Haukur segir að það hafi verið mjög ánægjulegt að finna hvað allir, sem voru við undirskrift samningsins, voru ánægðir með aðkomu UMFÍ. „Þetta var maður að vísu búinn að finna í heimsóknum og í samræðum við forsvarsfólk Bláskógabyggðar. Og eins og ég sagði í mínu ávarpi, þá voru þessar samningaviðræður á heilbrigðum og mannlegum nótum þar sem niðurstaðan átti að verða sem best fyrir alla.“

Haukur sagði jafnframt að tíminn muni leiða í ljós hvernig gengur en hann telur að þessi niðurstaða sé UMFÍ hagfelld og gefi hreyfingunni ýmsa möguleika á að vera með ýmsa viðburði á vegum heildarsamtakanna á Laugarvatni s.s. sambandsráðsfundi, ýmis námskeið, hópefli, aðgang að fræðasetri Háskólans og margt fleira.

Nýjar fréttir