-0.5 C
Selfoss

Heilsueflandi samfélag í Hveragerði

Vinsælast

Hveragerðisbær hefur ákveðið að bætast í hóp þeirra sveitarfélaga sem vinna í samstarfi við Embætti landlæknis að Heilsueflandi samfélagi en bæjarráð samþykkti tillögur menningar- og frístundafulltrúa þann 21. febrúar sl. Vinna við innleiðingu Heilsueflandi samfélags mun því hefjast sem fyrst.

Í Hveragerðisbæ hefur heilsa og líðan íbúa verið í fyrirrúmi og um leið hefur stuðningur við menningar-, íþrótta- og frístundahópa verið liður í að byggja upp öruggari starfsvettvang þessara hópa. Grunnskólinn í Hveragerði hefur hafið vinnu í átt að heilsueflandi grunnskóla og því telur bæjarstjórn að mikilvægt sé að stíga skrefið saman í átt að sameiginlegu markmiði í breiðu samstarfi. Heilsueflandi samfélag tengir saman almenna lýðheilsu allra bæjarbúa, skóla og vinnustaða.

Í liðinni viku hófst heilsueflingarverkefni fyrir eldra fólk 60+ og var þátttakan frábær. Um 78 íbúar mættu í heilsufarsmælingar en dagskrá átaksins byggir á styrktarþjálfun, þolþjálfun og fræðslufyrirlestrum um næringu, líkamsrækt og andlegt heilbrigði. Jónína Benediktsdóttir, heilsumarkþjálfi, leiðir verkefnið fyrir hönd Hveragerðisbæjar í samstarfi við félag eldri borgara.

Í Heilsueflandi samfélagi falla áherslur vel að stefnu bæjarfélagsins hvað varðar stefnumótun og aðgerðir á öllum sviðum og allir hafa þar hlutverki að gegna. Unnið er með áhrifaþætti heilbrigðis og vellíðanar s.s. félags-, efnahags- og menningarlegar aðstæður, manngert og náttúrulegt umhverfi til að skapa sem ákjósanlegastar aðstæður í lífi, leik og starfi fyrir fólk á öllum æviskeiðum.

Jóhanna Margrét Hjartardóttir, menningar- og frístundafulltrúi í Hveragerði.

Nýjar fréttir