-6.6 C
Selfoss
Home Fréttir Nýtt fræðsluefni í heilsuvernd skólabarna

Nýtt fræðsluefni í heilsuvernd skólabarna

0
Nýtt fræðsluefni í heilsuvernd skólabarna
Grunnskólinn í Hveragerði. Mynd: Hveragerði.
Sandra Leifs Hauksdóttir.

Skólahjúkrunarfræðingar sinna fjölbreyttum verkefnum í grunnskólum. Helstu verkefni í heilsuvernd skólabarna eru m.a. fræðsla, forvarnir, skimanir og bólusetningar. Markmiðið er að efla heilbrigði og stuðla að vellíðan nemanda.

Í öllum árgöngum fer fram skipulögð fræðsla þar sem áherslan er að hvetja nemendur til heilbrigðra lífshátta. Eftir hverja fræðslu fá foreldrar tölvupóst með upplýsingum um hvað fjallað var um hverju sinni. Mikið úrval er af fræðsluefni sem skólahjúkrunarfræðingar styðjast við og er það í stöðugri þróun. Á þessu skólaári var verið að bæta inn nýju áhugaverðu fræðsluefni í nokkrum árgöngum.

Með þessum breytingum er m.a. lögð aukin áhersla á geðheilbrigði. Strax í öðrum bekk fá nemendur fræðslu um mismunandi tilfinningar og hversu fljótt sé hægt að flakka á milli ólíkra tilfinninga. Með þessu móti geta börnin lært að þekkja mismunandi tilfinningar og lært að tjá sig um þær. Í fjórða bekk fá nú nemendur fræðslu um kvíða, hver einkenni hans geta verið og að hann geti verið eðlilegur. Rætt er við nemendur um úrræði við kvíða og börnunum kenndar slökunaræfingar. Í tíunda bekk fá nemendur fræðslu um geðheilbrigði þar sem farið er yfir einkenni geðsjúkdóma, hvert nemendur geta leitað eftir aðstoð og farið yfir bjargráð eins og hugræna atferlismeðferð, núvitund og slökun.

Hægt og rólega er einnig verið fara að bæta inn endurlífgun í sjötta til tíunda bekk þar sem nemendur fá verklega þjálfun í að hnoða og blása. Stefnt er að því að allir nemendur í sjötta til tíunda bekk fái kennslu í endurlífgun en farið verður rólega af stað. Í fyrstu mun kennslan fara fram í sjötta og tíunda bekk en síðar munu áttundi og níundi bekkur bætast við.

Það sem fjallað hefur verið um hér er aðeins lítill hluti af þeirri skipulögðu fræðslu sem skólahjúkrunarfræðingar sinna en fræðsluskipulagið í heild sinni eftir árgöngum má sjá nánar á heimasíðu landlæknis.

F.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands
Sandra Leifs Hauksdóttir, skólahjúkrunarfræðingur í Grunnskólanum í Hveragerði.