-6.1 C
Selfoss

Það var hakk og spaghettí

Vinsælast

Ég veit hvað þú ert að hugsa, lesandi góður, þú ert að horfa á myndina og hugsa: Hvor er hvað? Ég skal gefa þér vísbendingu: Ég er þessi sem er mínútunni eldri og sentimetrinum lægri.

Já, það er nefnilega bara þannig, Sunnlenski matgæðingurinn! Eftir öll þessi ár sem dyggur lesandi Dagskrárinnar, verandi þokkalegur í tölfræði, hefði ég nú geta sagt mér að líkurnar voru orðnar ansi miklar á því að minn tími væri kominn. Hef satt best að segja farið Huldu höfði til að reyna að sleppa við þessa áskorun því ekki er ég góður í eldhúsinu. Ég hef nefnilega erft mína hæfileika í eldhúsinu frá föður mínum en ekki móður minni. Með fullri virðingu fyrir pabba þá eru þeir hæfileikar ekkert að fleyta okkur langt, í mesta lagi upp að fiskibollum í bleikri sósu, lengra náum við ekki.

Ég elda heima hjá mér þegar húsmóðirin er að vinna lengur á kvöldin og er þá aðallega að hugsa um að koma einhverju fæði ofan í börnin mín svo þau fari ekki svöng að sofa. Ég ákvað því að spyrja þau hvað þeim þætti best af því sem ég elda handa þeim. Svarið kom nokkuð fljótt en það var hakk og spaghetti. Það að svarið hafi komi fljótt þýðir einfaldlega að um fátt hafi verið að velja, ekki af því að þessi réttur beri af hinum. En fyrst að þeim líkar hann þá gæti ég nú alveg leyft ykkur að prófa líka, þ.e.a.s ef þið þorið.
Það sem þarf í þennan rétt er eftirfarandi:

Ungnautahakk
Spaghettí
Tómatsósa
BBQ-sósa
Steiktur laukur
Salt
Krydd

Þið takið eftir að ég er ekki að gefa upp magn en það er byggt á því að ég er verkfræðingur og þið hafið heyrt brandarann um verkfræðinginn, stærðfræðinginn og eðlisfræðinginn sem voru að metast um það hvað 3 + 3 væri. Hann gengur út á það að stærðfræðingurinn og eðlisfræðingurinn eru mjög nákvæmir á meðan við verkfræðingar vitum alveg að 3+3 er 6 en við höfum það alltaf 9 til öryggis. Ég er því ekkert að gefa upp magn hér, það myndi bara misskiljast.

Aðferðin við að útbúa þennan rétt er svo ekki flókin:
Setjið vatn í pott til að sjóða spaghettíið. Magn af spaghetti sem fer í réttinn verðið þið sjálf að finna út. Er sjálfur löngu búinn að sætta mig við að magnið er aldrei akkúrat rétt, það er alltaf annað hvort of lítið magn eða of mikið magn.
Ég bæti svo út í pottinn smá olíu svo að spaghettíið festist ekki saman og dass af salti til að bragðbæta.
Meðan spaghettíið sýður byrjið á því að brúna hakkið á pönnu. Ég krydda það sjálfur með Kød og grill og Season all. Eins og ég sagði, ég er bara ekki lengra kominn en þetta.
Rétt áður en hakkið verður allt brúnt bætið þá steiktum lauk við. Ég nota steiktan lauk því að börnin samþykkja ekki hráan lauk. Ég strái lauknum rétt yfir yfirborðið á pönnunni sem sagt ekki of mikið magn.
Þegar hakkið er brúnað lækkið þá undir pönnunni og bætið slatta af tómatsósu út á hakkið.
Ekki gleyma spaghettíinu það er enn þá að sjóða sko!
Bætið svo BBQ-sósu við eftir smekk. Ekki of mikið því þá verður hakkið of sætt.
Þegar spaghettíið er orðið soðið, al dente, þá má taka það af og sigta vatnið frá í þar til gerðu íláti með götum.
Herlegheitin eru svo borin fram enn þá á pönnunni og í skál.
Ef við viljum virkilega gera vel við okkur þá fáum við okkur einnig kartöflumús. Ég geri hana beint upp úr pakka ef þú varst að spá í það, lesandi góður.

Mig langar svo að skora á frænda minn hann Kristján Jens Rúnarsson. Ég veit að faðir hans er meistarakokkur og því væri fróðlegt að sjá hvort hann hafi ekki erft hæfileikann frá föður sínum líkt og ég frá föður mínum. Annars þakka ég bara kærlega fyrir mig. Munið svo bara að vera góð við hvert annað, það kostar ekkert.

Nýjar fréttir