-5.2 C
Selfoss
Home Fréttir Hvaða gildi hafa félagasamtök í þínu nær samfélagi?

Hvaða gildi hafa félagasamtök í þínu nær samfélagi?

0
Hvaða gildi hafa félagasamtök í þínu nær samfélagi?
Laufey Guðmundsdóttir.

Góður félagsskapur er gulls ígildi. Kvenfélögin, Lions, Kiwanis, Rotary, björgunarsveitir, Rauði krossinn, sjúklingafélögin, kórar, leikfélög, og svo mætti lengi telja hafa um árabil lagt mikið af mörkum til samfélagsins. Helsti drifkraftur og styrkur slíkra félaga eru einstaklingar sem starfa af eldmóði og gleði og gefa tíma sinn. Trúlega væri margt öðruvísi ef enginn tæki þátt í félagsstarfi sem þessu.

Sem dæmi ef þú lítur í kringum þig inni á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum eru mörg tæki þar til lækninga og stuðnings styrkt af félagasamtökum. Ef þú lendir í háska í óbyggðum er björgunarsveitarfólk tilbúið að leggja niður vinnu eða standa upp frá fjölskylduboðinu til að koma þér til bjargar. Ef þú lenda í veikindum taka sjúklingafélögin utan um þig og veita þér stuðning. Ungmenna- og íþróttafélög eru að stóru leyti byggð upp af sjálfboðaliðum, í stjórnum félaga, deilda, skipulagningu móta, fjáröflun og utanumhald í kringum iðkendur/liðin.

Félagsþörf og félagslyndi einkennir þá einstaklinga sem ákveða að taka þátt. Það er gaman að vera í góðum félagsskap með góð markmið s.s. hjálpsemi, samkennd, vilja til að efla samfélagið og leggja sitt af mörkum til að gera gott samfélag betra og það eflir einstaklinginn sem tekur þátt.

Þegar Kvenfélag Grímsneshrepps var stofnað, voru markmiðin helst þau að að efla samúð og samheldni í nærsamfélagi. Í áranna rás hefur starfsemi félagsins tekið breytingum, en markmiðið hefur ávallt verið að efla nærsamfélagið.

Málþing á Borg
Kvenfélag Grímsneshrepps er 100 ára á þessu ári og á þessum tímamótum viljum við staldra við, velta fyrir okkur gildum og áherslum til framtíðar og þess vegna efnum við til málþings á Borg í Grímsnesi, laugardaginn 9. mars n.k. Ketill Berg Magnússon, formaður Almannaheilla, mun setja málþingið og stýra því. Forseti Íslands. hr. Guðni Th. Jóhannesson, ávarpar samkomuna og erindi flytja Ingrid Khulman, þjálfari, ráðgjafi og framkvæmdastjóri, Þekkingarmiðlunar, Helgi Kjartansson, oddviti Bláskógabyggðar og þátttakandi í ungmenna- og íþróttastarfi í gegnum tíðina, Vilborg Eiríksdóttir varaforseti KÍ, Halldóra Hjörleifsdóttir, félagi í björgunarsveit, kvenfélagi og oddviti Hrunamannahrepps og Anna María Snorradóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Að erindum loknum verða pallborðsumræður. Málþinginu lýkur um kl. 13.

Allir þeir sem áhuga hafa eru hjartanlega velkomnir til okkar á Borg í Grímsnesi laugardaginn 9. mars nk. húsið verður opnað kl. 10:15. Heitt verður á könnunni, en málþingið byrjar kl. 10:30.

Fyrir hönd félagskvenna í Kvenfélagi Grímsneshrepps
Laufey Guðmundsdóttir formaður