Íþróttafélagið Hamar í Hveragerði réði nýverið fyrsta framkvæmdastjóra félagsins. Eftir umsóknarferli var ákveðið að ráða Hafþór Vilberg Björnsson í starfið. Hafþór hefur um langt skeið verið virkur í flestum deildum Hamars og þekki því starfsemi félagsins mjög vel.
Hafþór er fæddur 1987 og er að ljúka B.Sc. námi í íþróttafræðum við Háskólann í Reykjavík og hefur margþætta reynslu úr félags- og íþróttastarfi, jafnframt því sem hann hefur til þessa einnig sinnt sölu- og markaðsstörfum m.a. fyrir Ölgerðina. Hafþór hóf störf 1. mars sl.
Þetta er í fyrsta sinn sem Íþróttafélagið Hamar ræður framkvæmdastjóra og er því um ákveðin tímamót í sögu félagsins að ræða. Til stendur að hafa fasta opnunartíma á skrifstofu félagsins, sem er í suðurenda Íþróttahússins í Hveragerði og verða þeir tímar auglýstir síðar. Vonir standa til þess að sterkt starf Íþróttafélagsins Hamars eflist á alla lund með tilkomu þess að framkvæmdastjóri hefji störf hjá félaginu. Aðalstjórn Hamars býður Hafþór innilega velkomin til starfans og hlakkar til samstarfsins, félaginu til heilla.