-5.2 C
Selfoss

Þjóðsagnamyndir Ásgríms Jónssonar í Listasafni Árnesinga

Vinsælast

Myndheimur íslenskra þjóðsagna og ævintýra sem Ásgrímur Jónsson skapaði með verkum sínum er sannkallaður töfraheimur, eins og segir á vef Listasafns Íslands. Og ævintýrin gerast enn. Á sýningunni Einu sinni var…, sem opnar í Listasafni Árnesinga í Hveragerði í dag, eru þjóðsagnamyndir Ásgríms Jónssonar sviðsettar inn í ævintýrarými þar sem m.a. er hægt að ganga í björg og lifa sig inn í sögurnar.

Sýningin Einu sinni var... býður allri fjölskyldunni og ferðafólki að kynnast þeim einstaka ævintýraheimi skrautbúinna álfa og ógnvekjandi trölla sem Ásgrímur Jónsson túlkaði af einlægni og ástríðu. Áhersla er lögð á að virkja ímyndunarafl gesta og gefa þeim kost á að njóta þessa menningararfs sem um margt getur varpað ljósi á ótta, drauma og þrár genginna kynslóða og sambúð þeirra við ógnvekjandi náttúru landsins. Einnig verður sögusvið sagnanna tengt við landslag í nágrenni safnsins.

Álfar, tröll og draugar tóku á sig skýra mynd í verkum Ásgríms, en hann sýndi slík verk í fyrsta sinn á Íslandi árið 1905. Þjóðsagnamyndirnar fengu góðan hljómgrunn og í blaðaskrifum um sýninguna má lesa að menn fagna því að í fyrsta sinn hafi íslenskur listmálari tekist á við að túlka þjóðsögurnar. Mikil sátt virðist hafa ríkt um útlit álfa og trölla í meðförum Ásgríms, svo ætla má að listamanninum hafi tekist að fanga þá mynd sem landsmenn höfðu skapað í huga sér af þessum fyrirbærum.

Sýningin Einu sinni var…

Sýningin er unnin í samstarfi við Listasafn Íslands og byggir á sýningunni, Korríró og Dillindó sem Listasafn Íslands vann og setti upp. Flest verkin eru fengin að láni úr safneign LÍ, en að auki eru þrjár myndir eftir Ásgrím úr safneign Listasafs Árnesinga. Einnig er þar eitt tröllaverk úr safneign LÁ eftir indverka myndlistarmanninn Baniprosonno og er það jafnframt skírskotun til sameiginlegs minnis sem þjóðsögur ólíkra þjóða eiga.

Það er Listasafni Árnesinga alltaf sérstök ánægja að setja upp sýninu á verkum Ásgríms Jónssonar sem fæddist og ólst upp á starfssvæði LÁ, nánar tiltekið í Flóanum. Á sýningunni má sjá fjölmörg lykilverk úr því fjölbreytta safni þjóðsagnamynda sem hann lét eftir sig, bæði olíu- og vatnslitamálverk auk fjölmargra teikninga, þ.á.m. túlkun á sögunum Mjaðveig Mánadóttir, Velvakandi og bræður hans, Gellivör, Jóra í Jórukleif, Una álfkona, Nátttröllið, Gissur á botnum, Búkolla, Djákninn á Myrká og Tröllin á Hellisheiði.

Sýningin mun standa 2. mars – 15. september 2019. Vetraropnun er fimmtudaga til sunnudaga kl. 12–18, en frá 1. maí verður safnið opið alla daga kl. 12–18. Aðgangur að safninu er ókeypis og allir velkomnir. Tekið er á móti hópum utan opnunartíma gegn gjaldi, en skólahópar fá alltaf frían aðgang.

Nýjar fréttir