-5.2 C
Selfoss

Flokkun í fremstu röð

Vinsælast

Bláskógabyggð og Grímsnes- og Grafningshreppur eru þessa dagana að taka stórt skref í flokkun á úrgangi. Nú um mánaðarmótin munu sveitarfélögin fara í þá vegferð að lífrænn úrgangur verði flokkaður í sér ílát. Krafa hefur verið frá íbúum og fyrirtækjum að auka flokkun og er þetta einn liðurinn í því að bregðast við þessum kröfum. Það sem flýtti þessari vegferð af stað, fyrr en áætlað var, er ákvörðun Sorpu bs. að taka ekki lengur við úrgangi frá Suðurlandi til urðunar í Álfsnesi. Þegar þetta er skrifað stefnir að óbreyttu í útflutning á sorpi til brennslu, sem mun kosta sveitarfélögin talsverða fjármuni og því er nauðsynlegt að minnka það sorp sem þarf að flytja út. Fasteignaeigendur og fyrirtæki þurfa því að flokka lífræna úrganginn og eru jafnframt hvött til að safna gleri og málmum meðal annars til að minnka magn almenns sorps og þar með kostnað við útflutning. Gler og málma verður hægt að setja í þar til gerða gáma á gámasvæðum sveitarfélaganna. Þessi úrgangur verður ekki sóttur að heimilum.

Sveitarfélögin tvö hafa unnið náið saman að sorpmálum síðan árið 2009 og hefur Gámaþjónustan þjónustað sveitarfélögin síðan. Flokkunin hófst árið 2009 með tveimur tunnum við hvert heimili, grárri tunnu undir almennt sorp og blárri tunnu þar sem pappír og pappa var safnað saman. Það var svo árið 2016 að næstu skref voru tekin þegar græn tunna undir plast kom á hvert heimili í sveitarfélögunum. Nú árið 2019 bætist brún tunna við undir lífrænan úrgang.

Það þýðir að frá og með næstu mánaðarmótum verða fjórar tunnur við hvert heimili í Bláskógabyggð og Grímsnes- og Grafningshreppi, ásamt hvatningu um að gler og málmur verður flokkaður sér. Við þessa breytingu verður flokkunin með því besta sem gerist á landsvísu. Með því að flokka í sex flokka; almennt, lífrænt, pappír og pappa, plast, málm og gler er úrgangurinn aðskilinn strax á heimilunum.

Í framhaldinu munu sveitarfélögin skoða þann möguleika að vinna lífræna hráefnið í heimabyggð í staðinn fyrir að keyra það langar vegalengdir í vinnslu. Lífrænn úrgangur er verðmæti og það er hægt að nýta hann með ýmsum hætti. Til að mynda er vert að skoða samstarf með garðyrkjubændum og öðrum aðilum þar sem mikið af lífrænum afurðum fellur til og sjá hvort þar leynist ekki tækifæri öllum til hagsbóta.

Mikilvægt er að vel takist til með flokkun hjá fasteignaeigendum, fyrirtækjum og gestum á þeim úrgangi sem til fellur. Það er okkur öllum til hagsbóta að minnka það magn sem fer til urðunar eða í brennslu eins og hægt er því það er hagstæðast fyrir okkur öll. Ef hægt er að halda niðri kostnaði í þessum málaflokki þá nýtist það okkur öllum en sorpmálin hafa verið að taka meira til sín í rekstri sveitarfélaganna síðustu árin m.a. með auknu sorpmagni. Þegar við leggjumst öll saman á eitt þá getum við náð góðum árangri fjárhagslega svo ekki sé talað um árangurinn þegar litið er til loftlagsmála á alþjóðavísu.

Á næstu dögum verða haldnir íbúafundir í sveitarfélögunum þar sem breytingin á sorptilhöguninni verður kynnt og fyrirspurnum svarað. Öll heimili geta fengið afhent lítið ílát undir lífræna úrganginn til að hafa í eldhúsinu eða öðrum hagstæðum stað. Ílátið er 8 lítra og verður afhent íbúum að kostnaðarlausu ásamt maíspokum því ekki má safna lífrænum úrgangi í venjulega plastpoka.

Fræðsluefni verður dreift á hvert heimili næstu daga í báðum sveitarfélögunum en í þessu fræðsluefni verður farið yfir flokkunina m.a. hvað á að fara í hverja tunnu fyrir sig. Eins verður ítarlegt fræðsluefni aðgengilegt á heimasíðum sveitarfélaganna.

Það er ósk okkar og við erum þess fullviss að fasteignaeigendur, fyrirtæki og gestir taki þessum breytingum vel og verði fljót að tileinka sér þá breytingu sem fram undan er.
Með samstilltu átaki getum við náð góðum árangri sem við öll högnumst á.

Helgi Kjartansson, oddviti Bláskógabyggðar
Ása Valdís Árnadóttir, oddviti Grímsnes- og Grafningshrepps

Nýjar fréttir