-6.6 C
Selfoss

Vegleg gjöf kvenfélaganna í Flóahreppi til HSU

Vinsælast

Síðastliðið haust héldu kvenfélagskonur í kvenfélögum Villingaholtshrepps, Hraungerðishrepps og Gaulverjabæjarhrepps sameiginlegan jólabasar í Þingborg. Allt söfnunarféð, alls 1.832.823 kr., rann óskipt til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands en markmiðið var að kaupa barkarennur með myndavél. Vonir stóðu til að geta fjármagnað þrjár barkarennur. Það stóðst og gott betur því tvær afar fullkomnar æfingadúkkur bættust við gjöf kvenfélaganna til HSU vegna þess hve vel basarinn gekk.

„Við í kvenfélögunum þremur erum ákaflega þakklátar því fólki sem kemur og styrkir okkur á jólabasarnum. Það gerir okkur kleyft að stuðla að umbótum sem þessum í nærsamfélagi okkar. Söfnunin gekk vonum framar og við gátum bætt æfingadúkkunum við sem að mér skilst séu mjög fullkomnar,“ segir Sólveig Þórðardóttir, formaður kvenfélags Villingaholtshrepps.

Í máli Hermanns Marínós, varðstjóra hjá sjúkraflutningum HSU, kom fram að barkarennurnar auðveldi barkaþræðingu til muna sem og bæti öryggi sjúklinga. Hvað dúkkuna varðar er hún afar fullkomin. Hægt er að framkalla ýmis einkenni í dúkkunni, hægt er að finna púls á hálsi hennar auk þess sem hún getur tjáð sig að einhverju leyti um ástand sitt. Kennarinn sem stjórnar einkennum dúkkunnar getur framkallað ýmsa sjúkdóma í henni til að æfa nemandann í viðbrögðum, til dæmis breytt hjartslætti hennar þannig að það þurfi að hnoða hana eða veita rafstuð. Það sést þá bæði á tækjabúnaði sem hægt er að tengja við dúkkuna ásamt því að finna má breytingar á púlsi á hálsi.

Alls voru keyptar þrjár barkarennur með myndavél að verðmæti 892.823 kr. og tvær fullkomnar kennsludúkkur að verðmæti 939.197 kr.

Nýjar fréttir