-2.2 C
Selfoss

Nýtt skipurit Sveitarfélagsins Árborgar tekið upp frá 1. mars

Vinsælast

Á fundi sínum í gærkvöldi samþykkti bæjarstjórn Árborgar að tekið yrði upp nýtt skipurit í sveitarfélaginu frá og með 1. mars nk. Í samtali við Gísla Halldór Halldórsson kemur fram að: „Innleiðing skipuritsins mun taka einhvern tíma í góðu samstarfi og samráði við starfsfólk. Það skiptir máli að allir leggist á eitt og taki höndum saman, en markmiðið er að breytingarnar verði sem best fallnar til árangurs fyrir sveitarfélagið og íbúa þess.“

Í tilkynningu um breytinguna kemur fram eftirfarandi: „Vönduð stjórnun er forsenda þess að vel takist til í þjónustu og rekstri sveitarfélagsins. Nýju skipuriti fyrir Sveitarfélagið Árborg er ætlað að skýra hlutverk og ábyrgð og stuðla þannig að góðri stjórnsýslu, vönduðum ákvörðunum og skilvirkri framkvæmd þeirra.

Verkefni sveitarfélaga eru flókin í eðli sínu og því nauðsynlegt að vanda til verka við útfærslu skipurits, þannig að fyrir liggi með skýrum hætti hvar ábyrgð liggur á framkvæmd, innleiðingu, eftirfylgni og eftirliti. Skipurit þarf að styðja við góða stjórnarhætti með skýrum hlutverkum einstakra eininga.

Í nýju skipuriti er stjórnsýslu og rekstri skipt upp í fjögur svið eins og lagt er til í skýrslu Haraldar L. Haraldssonar. Á hverju sviði er einn sviðsstjóri sem ber ábyrgð gagnvart bæjarstjóra á öllum málaflokkum sem undir sviðið heyra.

Undir nýtt svið, stjórnsýslusvið, heyra ýmis verkefni sem hafa verið unnin á skrifstofu Ráðhúss og víðar, auk þess sem skipulagsmálin falla undir þetta svið. Skipulags- og byggingarmál snúast í dag að stórum hluta um ítarlega og vandaða stjórnsýslu. Lagaleg álitamál verða jafnframt æ algengari í þessum málaflokki. Með því að færa skipulags- og byggingarmál undir stjórnsýslusvið er brugðist við þessum veruleika.

Með því að sameina verkefni félagsþjónustu og fræðslumála á einu sviði er undirstrikað mikilvægi þess að þeir starfsmenn, sem koma að málefnum fjölskyldna vinni náið saman. Þetta er í samræmi við þróun sem hefur átt sér stað hérlendis á undanförnum árum sem í dag má sjá í áherslum félags- og barnamálaráðuneytis.

Nýtt skipurit kallar ekki á aukinn launakostnað eða mannaráðningar og ekki er þörf á að gera breytingar á fjárhagsáætlun vegna þess. Hinsvegar var á haustmánuðum m.a. samþykkt að ráða bæjarritara til stjórnsýslunnar og verkefnisstjóra á framkvæmda- og veitusvið. Þeir starfsmenn munu gegna ábyrgðarhlutverkum í nýju skipuriti ásamt því að draga úr þörfinni á aðkeyptri sérfræðiþjónustu til sveitarfélagsins.

Breytingarnar munu leiða til þess að boðleiðir styttast og einfaldast, þar sem sviðsstjórum og deildarstjórum verður færð skýrari ábyrgð og umboð til að taka ákvarðanir í samráði við sitt starfsfólk.

Samhliða því að nýtt skipurit verður innleitt er áríðandi að skilgreind verði ýmis teymi sem bera eiga ábyrgð á framgangi verkefna. Slík teymi starfa þvert á svið og deildir og skýra hlutverk einstakra starfsmanna í slíkri samvinnu.

Nýtt skipurit sveitarfélagsins og markvissari stjórnun munu hafa í för með sér bætt skipulag og aukna skilvirkni sem aftur verður til þess að nýta fjármuni betur og bæta þjónustu við bæjarbúa.“

Nýjar fréttir