5 C
Selfoss
Home Fréttir Rótarý gegn lömunarveiki

Rótarý gegn lömunarveiki

0
Rótarý gegn lömunarveiki
Rótarý gegn lömunarveiki.

Rótarýhreyfingin hefur undanfarna áratugi barist gegn útbreiðslu lömunarveikinnar. Með þessari grein er ætlunin að kynna sjúkdóminn og átak Rótarý gegn henni.
Mænusótt eða lömunarveiki, á ensku polio, er smitsjúkdómur af völdum veiru sem leggst getur á taugakerfi líkamans og valdið lömun sem leitt getur til dauða. Veirusýking getur borist á milli manna einkum með saurgerlum sem komast í snertingu við munninn og meltingarveg, t.d. í gegnum mengað vatn eða gegnum aðrar millileiðir. Þeir sem eru í mestri hættu á að veikjast af sjúkdómnum eru nýburar, ung börn og óbólusettir einstaklingar.

Lömunarveikin var fyrst greind árið 1840 en árið 1908 var veiran sem veldur veikinni loksins uppgötvuð. Síðan hafa mótefni verið þróuð gegn veirunni. Frá því að byrjað var að bólusetja gegn sjúkdómnum árið 1955 hefur náðst mikill árangur og hefur nánast tekist að útrýma sjúkdómnum á heimsvísu. Samt sem áður ógnar lömunarveiki enn ungum börnum í fátækari löndum þar sem aðgengi að bóluefni er takmarkað.

Engin meðferð eða lyf eru til sem lækna sjúkdóminn. Almennt beinist meðferð að því að draga úr einkennum. Bólusetning er áhrifarík til að koma í veg fyrir sjúkdóminn hjá ungum börnum. Mikilvægt er að byrja að bólusetja ung börn því sjúkdómurinn er hættulegastur yngstu börnunum. Hér á landi eru börn bólusett við 3, 5 og 12 mánaða aldur og endurbólusett við 14 ára aldur. Bóluefnið verndar ekki lengur en í 10 ár og því er möguleiki á að smitast síðar á ævinni. Mælt er með að fullorðnir láti bólusetja sig gegn mænusótt á 10 ára fresti ef þeir ferðast til landa þar sem hætta er á smiti.

Rótarýhreyfingin er alþjóðleg friðar- og mannúðarhreyfing. Árið 1928 var formlega stofnaður sjóður er nefndur var Rótarýsjóðurinn (The Rotary Foundation). Hlutverk sjóðsins er að fjármagna þau verkefni sem hreyfingin vinnur að í þeirri viðleitni sinni að skapa betri og friðsamari heim.  Rótarýhreyfingin hefur barist gegn útbreiðslu lömunarveikinnar og unnið að því í nánu samstarfi við rótarýklúbba, stjórnvöld á viðkomandi svæðum og Alþjóðaheilbrigðisstofnunina WHO. Árið 1985, þegar Rótarýhreyfingin hóf bólusetningarherferð sína gegn lömunarveiki greindust 387.000 tilfelli lömunarveiki í heiminum. Árið 2016 voru tilvikin 30 talsins. Frá upphafi verkefnisins hafa vel yfir tveir milljarðar barna verið bólusett og til verkefnisins hefur Rótarýsjóðurinn varið um 600 milljónum dollara auk þess sem Bill og Melinda Gates sjóðurinn hefur lagt verkefninu til 1 billjón dollara.

Það er hægt að útrýma lömunarveiki. Hér á landi var farið að bólusetja við lömunarveiki árið 1956 með þeim árangri að hér á landi hefur enginn greinst með lömunarveiki frá árinu 1963 en þá greindust tveir með veikina. Það má ekki hætta að bólusetja við lömunarveiki fyrr en það er búið að útskrifa sjúkdóminn úr mannheimum og það verður væntanlega ekki fyrr en 10 til 20 árum eftir síðustu bólusetninguna. Mögulega gætum við séð síðasta tilfelli lömunarveiki í heiminum á næsta ári. Þó munu sjálfboðaliðar áfram bólusetja 450 milljón börn árlega þar til Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) hefur formlega lýst því yfir að lömunarveiki sé útrýmt.

Rótarý er hreyfing fólks úr viðskipta- og atvinnulífi og opinberri þjónustu. Rótarýhreyfingin er alþjóðafélagsskapur sem er starfandi í meira en 200 löndum í öllum heimsálfum. Félagar eru rúmlega 1,2 milljónir í um 35 þúsund klúbbum. Þessi alþjóðlegu samtök standa fyrir mannúðar- og menningarstarfi, stuðla að sem bestu siðgæði í öllum starfsgreinum og hvetja til góðvildar og friðar í heiminum. Til marks um það er opinbert kjörorð alþjóðahreyfingarinnar: „Þjónusta ofar eigin hag“. Á Íslandi eru starfandi 31 rótarýklúbbar með um 1300 félaga. Í klúbbunum er lifandi starf og reglulegir  fundir með fróðlegum fyrirlestrum og umræðu. Félagar eru á öllum aldri og af báðum kynjum. Rótarýdagurinn er haldinn hátíðlegur þann 23. febrúar næstkomandi og af því tilefni er Rótarýhreyfingin á landsvísu að vekja athygli á baráttu sinni gegn lömunarveiki.

Stjórn Rótarýklúbbs Selfoss