2.3 C
Selfoss

HSU fær 58 milljónir til eflingar geðheilbrigðisþjónustu

Vinsælast

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra tilkynnti í gær hvernig 630 milljónum króna af fjárlögum ársins verður ráðstafað til að efla geðheilbrigðisþjónustu á landsvísu. Fénu verður varið til að fjölga stöðugildum sálfræðinga í heilsugæslu annars vegar og til að efla og byggja upp geðheilsuteymi um allt land, segir í tilkynningu frá ráðuneytinu. Heilbrigðisstofnun Suðurlands fékk 58 milljónir í sinn hlut.

Auknir möguleikar til að veita þjónustu í heimabyggð

Við ákvörðun um skiptingu fjárins milli heilbrigðisumdæma var tekið mið af áætlunum heilbrigðisstofnana um uppbyggingu og eflingu geðheilsuteyma, íbúafjölda í viðkomandi heilbrigðisumdæmum og eins var horft til til lýðheilsuvísa Embættis landlæknis en þeir varpa ljósi á líðan og heilsu fólks sem hægt er að greina eftir svæðum og nýtast þar með til að greina sértæk svæðisbundin vandamál sem taka þarf tillit til. Unnið er með markmið þingsályktunar um stefnu og aðgerðaáætlunar í geðheilbrigðismálum að leiðarljósi.

Góð heilsa snýst ekki einungis um líkamlegt heilbrigði, heldur einnig og ekki síður góða andlega heilsu. Heilbrigðisþjónustan þarf að taka mið af þessu og byggjast upp í samræmi við það.

Hlutverk heilsugæslunnar er að veita fyrsta stigs heilbrigðisþjónustu og því þarf hún að vera í stakk búin til að takast á við þau heilbrigðisvandamál fólks sem algengust eru, hvort sem þau  vandamál eru af líkamlegum eða geðrænum toga. Uppbygging sálfræðiþjónustu innan heilsugæslunnar er liður í því að efla heilsugæsluna hvað þetta varðar. Þannig á fólk að geta fengið meðferð og stuðning vegna algengustu geðraskana, svo sem þunglyndis og kvíðaraskana í heilsugæslunni.

Geðheilsuteymin eru hugsuð sem annars stigs heilbrigðisþjónusta og þjónusta þeirra er veitt á grundvelli tilvísana. Þar er mætt vanda fólks þegar hann er flóknari en svo að hægt sé að mæta honum innan heilsugæslunnar.

 

 

Nýjar fréttir