4.5 C
Selfoss
Home Fréttir Vegna umræðu um veggjöld

Vegna umræðu um veggjöld

0
Vegna umræðu um veggjöld
Birgir Þórarinsson.

Samgönguáætlun var afgreidd á Alþingi í síðustu viku. Áætlunin tók mikilvægum breytingum í meðförum umhverfis- og samgöngunefndar, undir forystu Miðflokksins. Má þar nefna að framkvæmdum við Suðurlandsveg og Reykjanesbraut verður flýtt og mun ljúka á næstu 5–6 árum en áform ríkisstjónarinnar gerðu ráð fyrir því að þeim lyki á næstu 15–20 árum.

Samgönguráðherra skipaði starfshóp um samgöngumál sem hefur skilað niðurstöðu. Leggur hópurinn til að tilteknar framkvæmdir verði fjármagnaðar með gjaldtöku og að gjöld verði hófleg og tilgangur þeirra skýr. Fyrir nefndina komu fjölmargir gestir og tók meirihluti þeirra vel í hugmyndir um gjaldtöku ef slíkt gæti hraðað framkvæmdum. Var það m.a. sérstaklega nefnt að eðlilegt væri að ferðamenn greiði fyrir afnot af vegum landsins í ríkara mæli, en á árinu 2017 komu 2,2 milljónir ferðamanna til landsins. Miklar umræður áttu sér stað í þinginu um málið.

Engar ákvarðanir um veggjöld hafa verið teknar

Rétt er að leggja áherslu á það hér að engar ákvarðanir hafa verið teknar um veggjöld. Samgönguráðherra ítrekaði það í fréttum fyrir fáeinum dögum en hefur engu að síður boðað frumvarp um veggjöld á vorþinginu. Gjaldtakan er háð því að frumvarpið verði samþykkt og er alls kosta óvíst að svo verði. Í því sambandi er rétt að benda á að hvergi er minnst á veggjöld í sáttmála ríkisstjórnarinnar. Vinstri grænir töluðu gegn veggjöldum fyrir kosningar og það sama gerði Framsóknarflokkurinn.

Hringlandaháttur samgönguráðherra

Kúvending Framsóknar í veggjaldamálinu er athyglisverð en formaður flokksins sagði það skýrt fyrir kosningar að veggjöld yrðu aldrei á hans vakt. Skipti hann síðan um skoðun eftir að hann settist í ríkisstjórn. Ráðherra hefur svo aftur skipt um skoðun, núna strax að lokinni umræðu um málið á Alþingi segir hann í fréttum að veggjöld verði eftir 4–5 ár. Þar með hlýtur hann að hætta við að leggja veggjaldafrumvarpið fram í vor, ef hann er sjálfum sér samkvæmur. Verður að telja að þetta nýjasta útspil ráðherrans setji málið í uppnám á ríkisstjórnarheimilinu. Það er algjörlega á skjön við það sem Sjálfstæðismenn hafa boðað.

Gjöld á bifreiðaeigendur verða að lækka

Miðflokkurinn ákvað að styðja það innan umhverfis- og samgöngunefndar að veggjaldaleiðin yrði skoðuð. Vega þar öryggismálin þyngst og mikilvægi þess að geta flýtt framkvæmdum af þeim sökum. Hins vegar mun flokkurinn ekki styðja frumvarp um veggjöld, komi það þá yfir höfuð til afgreiðslu í þinginu, nema önnur gjöld á bifreiðaeigendur lækki á móti, eins og bifreiðagjald og gjöld á díselolíu og bensín. Er það alveg skýrt af hálfu flokksins. Gjöld á bifreiðaeigendur eru nú þegar í hæstu hæðum og verða að lækka.

Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi.