4.5 C
Selfoss

Líf í lygi er hættulegt

Vinsælast

Lilja Magnúsdóttir sendi frá sér sína fyrstu skáldsögu á síðasta ári. Bókin er spennusaga sem ber titilinn „Svikarinn“ og hefur hlotið góðar viðtökur meðal lesenda. Lilja hefur um árabil kennt íslensku, bæði á Kirkjubæjarklaustri og í Kópavogi. Hún var tekin tali á Bókakaffinu á Selfossi.

Hef mikla ástríðu fyrir bókum
Lilja er fædd og uppalin í Borgarfirði og átti heima á bænum Hraunsnefi í Norðurárdal ásamt foreldrum sínum og systkinum. Lilja sótti heimavistarskóla í Varmalandi og síðar í Reykholti. Fluttist svo til Reykjavíkur og hélt áfram námi þar.
„Ég kynntist svo manninum mínum þegar ég fluttist einn vetur austur á Kirkjubæjarklaustur til að kenna í Kirkjubæjarskóla. Eftir það fór ég suður og tók BA próf í íslenskum fræðum í HÍ og seinna einnig kennsluréttindi. Ég hef starfað sem kennari við Kirkjubæjarskóla og í Menntaskólanum í Kópavogi og kenndi oft íslensku sem annað mál, bæði börnum og fullorðnu fólki. Á Kirkjubæjarklaustri var ég í nokkur ár forstöðumaður Héraðsbókasafnsins sem er einnig skólabókasafnið. Það var skemmtilegt starf því ég hef mikla ástríðu fyrir bókum.“

Safna sögum úr samfélaginu
„Menning, náttúran og saga sveitanna fyrir austan heillaði mig frá upphafi og ég gerði mér far um að lesa allt um svæðið. Mér finnst svo margt sem er sérstakt í Skaftárhreppi; náttúruhamfarir setja mjög mikinn svip á samfélagið og landið, skipsströnd voru mjög mörg, ferðirnar yfir Skeiðarársand áður en brýrnar komu voru merkilegar og svo margt fleira. Ég fór að tína þetta efni saman og skrifa stuttar frásagnir og þá kom að því að mig langaði að setja þetta saman í bók. Ég fór í Háskóla Íslands í grein sem heitir Hagnýt ritstjórn og útgáfa og þar var lokaverkefnið handrit að bók. Það er ábyrgðarhluti að gefa út bók og vísa á staði sem ekki er búið að undirbúa því stuttu síðar er komin fjöldi fólks og svæðið skemmist af áganginum. Ég hætti þess vegna við að gefa út bók og setti frásagnirnar á vef sem er opinn öllum; eldsveitir.is. Með frásögnunum er fjöldi ljósmynda sem ég hef fengið lánaðar hjá íbúum í Skaftárhreppi og skannað inn á vefinn. Myndasöfnunin skilaði svo öðru verkefni þar sem gamlar myndir eru skannaðar og skráðar meðan heimildamanna nýtur við en markmiðið er að nota þær síðar við uppsetningu á sýningum eða bókaútgáfu. Margar þessara mynda birtust í bókinni Fornar ferðaleiðir sem Vera Roth skrifaði og kom út vorið 2018. Þessi þrjú verkefni hafa öll fengið góða styrki frá Uppbyggingarsjóði SASS og verkefninu Brothættum byggðum sem var að ljúka hér í Skaftárhreppi.“

Spennusaga um venjulegt fólk
Lilja hefur alltaf skrifað í gegnum tíðina. Þegar hún kenndi gerði hún sér far um að láta nemendur skrifa bæði ritgerðir og sögur. Hún þróaði meðal annars áfanga í Menntaskólanum í Kópavogi sem nefndist barnabókmenntir.
„Ég hef mikla trú á því að til þess að verða góður í tungumálinu þurfi fólk að lesa og skrifa. Í áfanganum Barnabókmenntir var lokaverkefnið að skrifa bók. Það er í raun kveikjan að sögunni Svikaranum því ég ákvað, í miðri prófatörn 2008, að skrifa með nemendunum og til varð smásagan Svikarinn sem ég sendi inn í Smásagnakeppni, sem tímaritið Mannlíf stóð fyrir, vann fyrsta sætið og hlaut Gaddakylfuna. Sagan mallaði í huganum og smátt og smátt tóku persónurnar á sig mynd og örlög þeirra spunnust í huga mér. Þannig varð skáldsagan Svikarinn til.

Beinagrindur eru byrði
Svikarinn er spennusaga um unga konu sem missir allt og berst við að fóta sig á ný. Það má hiklaust mæla með sögunni fyrir unga sem aldna. Ég las glæpasögu um daginn þar sem átta lágu í valnum á endanum. Lýsingarnar voru svo yfirgengilegar, og eru það oft sér í lagi í norrænum krimmasögum, að mér eiginlega ofbauð. Ég vildi ekki fara þá leið. Mig langaði að gera auðlesna bók þar sem sagan rennur áfram og þú óttast ekki einhvern hrylling á hverri síðu, þó að sagan sé spennandi.“ Og sagan er vissulega þannig að það er auðvelt að gleyma sér yfir henni. Lygin leikur stórt hlutverk í sögunni. „Við veljum stundum að ljúga til að bjarga okkur úr vanda eða til að vernda einhvern og fara þannig auðveldu leiðina sem er svo ekki eins auðveld þegar upp er staðið og getur endað á að allt er komið í hnút sem erfitt er að leysa. Lygin stjórnar oft of miklu í lífi okkar og við erum þá ekki við stjórnvölinn sjálf. Það er erfitt að burðast allt lífið með beinagrindur í skápnum. Þetta er svo enn sýnilegra í okkar litla samfélagi og í sögusviði bókarinnar þar sem hún er látin gerast í fámenni og beinagrindurnar dúkka upp hver af annarri eftir því sem sögunni vindur fram.“

Nýjar fréttir