3.9 C
Selfoss

Tískuverslunin Lindin 45 ára

Vinsælast

Mæðgurnar Bryndís Brynjólfsdóttir og Kristín Hafsteinsdóttir halda upp á 45 ára afmæli verslunarinnar Lindarinnar. Í tilefni af afmælinu eru nýjar vörur í versluninni á góðum afslætti ásamt því að boðið er upp á kaffi og kruðerí.

Þær mæðgur stilltu sér upp við fyrstu vöruna sem keypt var inn í verslunina fyrir 45 árum en um er að ræða ullarkápu sem keypt var af indverskum kaupmanni í London. „Þegar ég fór til London í fyrstu innkaupaferðina mína þá hitti ég indverskan kaupmann sem lagði mér línurnar og sumum af þeim ráðum hef ég ætíð fylgt. Það varð úr að ég keypti af honum kápur til að selja hér heima. Kaupmanninum fannst Ísland vera óralangt í burtu og ég man eftir að hann smíðaði kassa utan um kápurnar svo þær kæmust heilar á leiðarenda. Kassann notum við svo enn í sumarbústaðnum okkar undir ýmsa kælivöru sem ég geymi utandyra,“ segir Bryndís hlæjandi. Tískan fer í hringi og viðmælendur eru sammála um að kápan gæti allt eins verið að koma í sölu núna eins og fyrir 45 árum, enda sér ekki á henni.

Það eru ekki einungis Selfyssingar og nærsveitungar sem þekkja tískuverslunina Lindina. Í auknum mæli nýtur verslunin vinsælda meðal íbúa á höfuðborgarsvæðinu, landsbyggðarfólks og sumarbústaðaeiganda. „Það er óhætt að segja að viðskiptavinir okkar komi víða að. Það eru forréttindi að njóta þeirrar gæfu að eiga trygga og góða viðskiptavini. Við leggjum metnað okkar í að fylgjast vel með tískunni á hverjum tíma og bjóða upp fallegar og spennandi vörur á góðu verði.“

Aðspurð að því hvað er framundan segir Kristín: „Við erum um þessar mundir að undirbúa opnun netverslunar. Með tilkomu hennar getum við enn betur þjónustað viðskiptavini okkar um allt land. Það er okkur mikið kappsmál að fylgja straumum og stefnum í okkar viðskiptaumhverfi. Í tilefni af þessum merku tímamótum í sögu fyrirtækisins erum að taka inn mörg ný og spennandi merki frá hinum ýmsu löndum. Að lokum viljum við fá að þakka öllum viðskiptavinum okkar í gegnum árin fyrir samfylgdina og viðskiptin. Hlökkum til að þjónusta ykkur í framtíðinni“, segir Kristín.

Nýjar fréttir