-1.5 C
Selfoss
Home Fréttir Einfaldur chilli-blaðlauks kjúklingaréttur

Einfaldur chilli-blaðlauks kjúklingaréttur

0
Einfaldur chilli-blaðlauks kjúklingaréttur
Anna Margrét Káradóttir.

Ég vil að sjálfsögðu byrja á því að þakka Loga kærlega fyrir áskorunina og tek henni fagnandi. Ég ætla að gefa ykkur uppskrift að sweet chilli-blaðlaukskjúklingarétti sem ég geri reglulega, enda afar einfaldur en alveg ofsalega bragðgóður. Ég er rosalega mikill slumpari í eldhúsinu en ég ætla að reyna að gefa ykkur raunsæ hlutföll.

Hráefni :
2-3 kjúklingabringur
Heill blaðlaukur
1 dós sýrður rjómi
100 gr. rjómaostur
1 teningur kjúklingakraftur
3-5 msk. sweet chilli-sósa
1-2 geirar hvítlaukur (Ég set alveg þrjá en ég er hvítlaukssjúk)
Rifinn ostur eftir smekk

Ég byrja á því að skera bringurnar í litla bita og steiki á pönnu, kryddið eftir smekk, ég nota salt og pipar. Kjúklingabitarnir fara síðan í eldfast mót og því næst steiki ég blaðlaukinn ásamt hvítlauknum þar til hann er orðinn passlega mjúkur. Ég blanda síðan sýrða rjómanum, rjómaostinum, teningnum og sweet chilli-sósunni við og læt þetta malla smá.

Næst helli ég þessu yfir kjúklinginn og sáldra rifnum osti yfir og hendi inn í ofn á ca. 200 gráður í 10-15 mín. eða þar til osturinn er orðinn fallega bráðinn og sósan lætur í sér heyra.

Ég ber réttinn fram með hrísgrjónum og salati með fetaosti en þess má til gamans geta að þessi réttur er jafnvel enn betri upphitaður.

Þar sem ég er mikil meðlætismanneskja þá verð ég einnig að láta fylgja með uppskrift að fröllurétti sem við fjölskyldan erum fræg fyrir, algjörlega ótengt kjúklingaréttinum hér að ofan. Það er orðin hefð fyrir því að bera þennan fröllurétt fram með hamborgarhryggnum á jóladag og svo virkar hann með hverju sem er, hann er algjörlega ruglaður þessi réttur.

Hráefni :
1 poki tilboðsfranskar (þessar í gula pokanum sem hafa verið á tilboði í 20 ár)
1 poki rifinn ostur
500 ml matreiðslurjómi
Season all (eða eitthvað í líkingu við það)

Fröllurnar fara í eldfast mót, rjómanum er hellt yfir svo hann fljóti aðeins yfir fröllurnar og síðan er stráð vel af Season all yfir. Þetta fer síðan inn í ofn, 200 gráður í 20 mín. Því næst er rifna ostinum stráð yfir og aftur aðeins meira Season all og aftur inn í ofn í 10 mín. og svo er þetta bara tilbúið.

Ég skora á Selfyssinginn Lárus Arnar Guðmundsson að heiðra okkur með einhverri framandi uppskrift en við eigum það sameiginlegt að fara ótroðnar og oft umdeildar slóðir í eldhúsinu. Takk fyrir mig!

Kveðja,
Anna Margrét Káradóttir