4.5 C
Selfoss

Tímastjórnun eða tímasóun

Vinsælast

Það er mikilvægt að vera stjórnandi í eigin lífi. Við vitum að sumu er ekki hægt að stjórna og það er mikilvægt að sætta sig við það. En öðru getum við stjórnað. Til dæmis getum við haft veruleg áhrif á þann tímaramma sem við setjum okkur gagnvart fundum. Í mörg ár lét ég það pirra mig þegar ég mætti á fundi að þeir byrjuðu ekki fyrr en seint og um síðir. Svo þegar þeir byrjuðu þá fóru þeir um víðan völl og umræðuefnið var lítið sem ekkert skylt fundarefninu. Svo þegar allir voru orðnir þreyttir og jafnvel einhverjir farnir heim þá var hið eiginlega fundarefni keyrt í gegn á mettíma.

Svo gekk ég í Powertalk. Þar lærði ég að svona eiga hlutirnir ekki að vera. Ég lærði að setja upp tímamörk, fara eftir tímamörkum, segja öðrum til með tímamörk og einnig að stýra fundum þannig að þeir aðilar sem sitja fundinn haldi sig við fundarefni. Þetta er auðvelt ef maður er fundarstjóri. En það er líka í boði að gera athugasemdir úr sal til fundarstjóra um að halda tímamörk og að halda fólki við efnið. Í Powertalk hef ég öðlast sjálfstraust og þekkingu sem gerir það að verkum að ég þori að gera athugasemdir þegar mér finnast fundir vera til þess að eyða tíma mínum án þess að ég fái neitt út úr fundinum. Powertalk fræðir, eflir og styrkir. Powertalk bætir tímastjórnun.

Powertalk deildin Jóra starfar á Selfossi og fundar 1. og 3. mánudag í mánuði oftast í Selinu við Engjaveg. Gestir eru velkomnir á alla fundi.

Sigríður Pálsdóttir, Víðivöllum 20, Selfossi

Nýjar fréttir