Handknattleiksfólkið Elvar Örn Jónsson og Perla Ruth Albertsdóttir voru valin íþróttakarl og íþróttakona ársins 2018 hjá Ungmennafélagi Selfoss. Fengu þau afhent viðurkenningar á verðlaunahátíð félagsins sem haldin var í gærkvöldi. Þetta annað árið í röð sem þau hljóta þennan heiður og jafnframt var þetta annað árið sem félagið heldur sérstaka verðlaunahátíð fyrir íþróttafólk ársins.
Perla Ruth er lykilleikmaður í liði Selfoss sem leikur í Olís-deildinni. Liðið náði sínum besta árangri keppnistímabilið 2017–2018 þegar það endaði í sjötta sæti. Pera Ruth tók þátt í öllum landsliðsverkefnum ársins og stimplaði sig inn sem lykilleikmaður í landsliðinu.
Elvar Örn er lykilleikmaður í liði Selfoss í Olís-deildinni en liðið náði sínum besta árangri í deildarkeppni á árinu, lék til undanúrslita á Íslandsmóti og bikarkeppni auk þess að taka þátt í Evrópukeppni. Á liðnu ári stimplaði Elvar Örn sig inn sem byrjunarliðsmaður hjá íslenska landsliðinu ásamt því að vera valinn besti leikmaður Olís-deildarinnar á síðustu leiktíð.
Á verðlaunahátíðinni var íþróttafólk ársins í deildum félagsins einnig heiðrað, en hver deild gat tilnefnt íþróttakarl og íþróttakonu í sinni deild.
Fimleikar: Bjarni Stefánsson og Birta Sif Sævarsdóttir
Frjálsar: Kristinn Þór Kristinsson og Eva María Baldursdóttir
Handknattleikur: Elvar Örn Jónsson og Perla Ruth Albertsdóttir
Júdó: Egill Blöndal
Knattspyrna: Guðmundur Axel Hilmarsson og Magdalena Anna Reimus
Mótokross: Gyða Dögg Heiðarsdóttir
Sund: Sara Ægisdóttir
Taekwondo: Þorsteinn Ragnar Guðnason og Dagný María Pétursdóttir