Hélène Dupont er lestrarhestur Dagskrárinnar. Hún er fædd og uppalin í suðvestur Frakklandi. Hún er þriðja barn af fimm systkinum. Hún segir að í bernsku sinni hafi hún verið lesandi bækur nema þegar hún lék sér við vinkonur sínar, frænkur eða systkini. Eftir B.A. próf í heimspeki og eins árs framhaldsnám vann hún um 12 ára skeið hjá útgáfufyritækinu Les éditions Autrement í París auk þess að sækja kvöldnámskeið í skrautskrift. Hún kom til Íslands árið 2000 og hefur búið hér síðan.
Hvaða bók ertu að lesa núna?
Núna ég er að lesa Ungfrú Ísland eftir Auði Övu Ólafsdóttur. Mig langar að lesa allt sem hún hefur skrifað. Fyrst las ég sögu hennar Rigningu í nóvember svo var það Afleggjarinn og síðast skáldsaga hennar Ör sem fékk bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs. Mér finnst áhugavert hvernig Auður skrifar um venjulegt fólk, hvernig hún túlkar tilfinningar þess og skapar lifandi umhverfi. Oftast lýsir hún daglegu lífi í sögum sínum og það gerist ekki mikið.
Hvers konar bækur höfða helst til þín?
Ævisögur um listamenn, sjálfshjálparbækur, ljóðabækur og spennusögur.
Ertu alin upp við bóklestur?
Ég man ekki eftir því að það hafi verið lesið fyrir mig en sjálf lærði ég að lesa snemma. Ein uppáhaldsbókin mín var Tout sur la nature sem útleggst á íslensku Allt um náttúruna. Amma mín gaf mér þá bók þegar ég var níu ára gömul. Ég man hvað mér fannst ótrúlegt að lesa það sem skrifað var um kríuna sem er ennþá uppáhalds fuglinn minn ásamt himbrima. Foreldrar mínir voru alla tíð alvöru lestrarhestar. Móðir mín, sem núna er 86 ára gömul, les ennþá nokkrir stundir á hverjum degi.
Hvernig myndir þú lýsa lestrarvenjum þínum?
Kannski má segja að ég rúlli á milli bóka. Það tók mig talsverðan tíma að læra íslensku þannig að ég byrjaði að lesa á ensku þegar mig vantaði bækur á frönsku. Þegar ég flutti hingað gerðist ég meðlimur í bókasafninu á Eyrarbakka eftir fyrstu vikuna og byrjaði að lesa ljóðabækur. Mér finnst gaman að halda áfram að lesa bækur á íslensku, frönsku og ensku. Þetta gefur mér meira val. Í júní árið 2000 voru aðeins fimm bækur til á frönsku í bókasafninu á Selfossi. Oftast hef ég að minsta kosti þrjár bækur í gangi í einu. Núna eru það nýjasta skáldsaga Auðar Övu, önnur um myndlíst Les écrits de Matisse og sú þriðja um sálfræði sem kallast Beliefs eftir Robert Dilts.
Áttu þér uppáhaldshöfund?
Bohumil Hrabal frá Téklandi var lengi uppáhalds höfundurinn minn. Hann kunni að setja húmor í alls konar erfiðar aðstæður persóna sinna. Mér finnst líka Jane Austen frumlegur sálfræðingur. Ég vel samt frekar bækur eftir þemum sem freista mín: trú, sálfræði, list, heilsa, nattúra. Allt sem fjallar um sköpun, ferðabækur og ljóð svo nokkuð sé nefnt.
Hefur bók rænt þig svefni?
Ó já. Bækur gera það svo sannarlega og gera ennþá. Það er svo spennandi að upplífa ævintýri þeirra á þægilegan hátt, liggjandi í kyrrð og næði.
En hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?
Mér finnst nóg til að bókum þannig að ég þarf ekkert endilega að bæta einhverju við. Mér finnst mjög gaman að fara í bókabúð eða á bókasafn. Nytjamarkaðurinn og bókakassar í almannarými hafa oft bjargað sálu minni. Að skoða bókahillur vinkvenna minna og gleyma mér þar getur veitt mér endalausa gleði og hamingju. Miklu meiri en matseðill á fínu veitingahúsi.