Í desember 2017 voru íbúar Áborgar 8.967 og fjöldi íbúa í desember 2018 var 9.452. Það gerir fjölgun upp á 485 einstaklinga. Gera má ráð fyrir að meðal þessara 485 einstaklinga sé allur skalinn af fólki, þar meðtalin börn.
Börnin okkar eru framtíðin en við sem samfélag berum ábyrgð á að veita þeim umhverfi sem hjálpar þeim að dafna og skína hver á sinn hátt. Til þess að gera það þurfum við því að líta inn á við og hugsa vel og vandlega hvernig samfélag við viljum að börnin okkar alist upp í.
Leikskólarnir okkar eru framúrskarandi með mikið af fagfólki innanborðs sem vinnur hörðum höndum að því að hugsa um og kenna börnunum okkar. Á það einnig við um grunnskólana. Það má svo ekki gleyma hinu frábæra íþróttastarfi sem hér ríkir og tel ég að með tilkomu frístundarútunnar höfum við sem samfélag ýtt undir að enn fleiri hafi tækifæri til þess að stunda þær íþróttir sem þeir kjósa sér. Þá hefur frístundastyrkur verið hækkaður úr 30.000 í 35.000 krónur.
Við erum að gera margt mjög gott og mikilvægt er að hugsað sé um fjölskylduna í heild sinni. Hvernig ætlum við að koma til móts við barnafjölskyldur svo að öll börnin okkar hafi jöfn tækifæri til að skara fram úr.
Þann 16. janúar síðastliðinn var samþykkt samhljóða á fundi bæjarstjórnar að hækka systkinaafslátt með öðru barni úr 25% í 50%, þá er systkinaafsláttur 100% með þriðja barni. Þessum breytingum tek ég fagnandi því það að kosta systkinahóp í leikskóla, skóla, frístundaiðkun eða íþróttaiðkun auk alls annars sem nútíminn kallar á kostar einfaldlega of mikið.
Með þessum hækkunum sem taldar eru upp hér að ofan tel ég að bæjarstjórn sé að koma til móts við þær barnafjölskyldur sem hér búa, þó þarf að halda áfram þeirri góðu vinnu og stíga fleiri skref í að auka systkinaafslætti barnmargra fjölskyldna því heildarkostnaður þeirra er umtalsverður. Við í Árborg erum á góðri leið með því að vera í fararbroddi íslenskra samfélaga þegar kemur að því að styrkja og styðja börnin og þeirra fjölskyldur.
Inga Jara Jónsdóttir, 5. sæti á lista Framsóknar og óháðra í Árborg