-6.6 C
Selfoss

Nýi miðbærinn á Selfossi brúar gamalt og nýtt

Vinsælast

Óhætt er að segja að kynning á nýja miðbænum á Selfossi hafi slegið í gegn á alþjóðlegu ferðakaupstefnunni Mid-Atlantic sem haldin var í Laugardalshöllinni um liðna helgi. Á kaupstefnunni koma saman um 700 helstu seljendur og kaupendur frá 20 löndum í ferðaþjónustunni beggja vegna Atlantshafsins.

„Nýtt stórt líkan af miðbæ Selfoss sem Snorri Freyr Hilmarsson smíðaði af alkunnu listfengi vakti mikla aðdáun gesta. Við teljum mikilvægt að byrja strax á alvöru markaðsstarfi og þetta listaverk Snorra á Mid-Atlantic hjálpaði svo sannarlega,“ segir Guðjón Arngrímsson í samtali við Dagskrána.

Undanfarnar vikur hafa starfsmenn Borgarverks unnið að jarðvinnu á byggingarreitnum, fjarlægt nálægt 30 þúsund rúmmetra af jarðvegi, og flutt til uppbyggingar á golfvellinum. Svæðið er nú að verða tilbúið fyrir Jáverk að hefja uppsteypu hverfisins.

„Verkefnið er á áætlun og við gerum ráð fyrir að fyrri áfangi verði opnaður vorið 2020. Nokkrar breytingar á hönnun hafa verið gerðar frá því í sumar, sú stærsta að við höfum ákveðið að lækka niður suðurhluta torgsins framan við gamla mjólkurbúið til að auka möguleika veitingahúsa og skapa skjólbetra umhverfi“, segir Guðjón.

„Við höfum líka notað tímann til þess að undirbúa kynningarstarf miðbæjarins, fengum erlenda ráðgjafa til liðs við okkur, héldum hér vinnustofur fyrir áramót og ræddum við fjölda Selfyssinga. Þetta er langtímaverkefni, sem við viljum að höfði til heimamanna, til Íslendinga almennt og til erlendra ferðamanna eins og fram hefur komið. Við munum kynna þetta allt betur á næstu mánuðum en í stuttu máli þá munum við í markaðs- og kynningarstarfinu vinna áfram með grunnhugmyndina að baki miðbænum, sem er að tefla saman framtíðarhugsun og eldri byggingarstíl og sögu, og leyfum okkur að segja, með vísan til Ölfusárbrúarinnar, að Selfoss sé bær sem brúar gamalt og nýtt,“ segir Guðjón.

Nýjar fréttir