-10.5 C
Selfoss
Home Fréttir Skjaldbökurnar í Hveragerði með opinn fund um veggjöld

Skjaldbökurnar í Hveragerði með opinn fund um veggjöld

0
Skjaldbökurnar í Hveragerði með opinn fund um veggjöld
Hveragerði. Ljósmynd: Hveragerði.

Rafhjólaklúbburinn Skjaldbökurnar stendur fyrir opnum fundi um veggjöld, fimmtudaginn 7. febrúar nk. kl. 19:30 í Blómasalnum, Austurmörk 4, Hveragerði.

Mikil umræða hefur verið undanfarið í þjóðfélaginu um fyrirhuguð veggjöld svo efla megi samgönguleiðir í landinu og sitt sýnist hverjum.

Í tilkynningu segir að það sé mat klúbbsins að frekari umræðu sé þörf í þjóðfélaginu um svo viðamiklar breytingar. Klúbburinn hefur því boðið Jóni Gunnarssyni, alþingismanni, Vilhjálmi Árnasyni, alþingismanni, Oddnýju G. Harðardóttur, alþingismanni, Hönnu Katrínu Friðriksdóttur, alþingismann og Eyþóri Ólafssyni, forseta bæjarstjórnar Hveragerðis að vera við háborð fundarins. Fundarstjóri verður Þórunn Pétursdóttir, bæjarstjórnarmaður í Hveragerði.

Gert er ráð fyrir að fundurinn standi yfir í tvær klukkustundir þ.e. frá kl. 19:30 til kl. 21:30. Öllum við háborðið býðst að vera með framsögu en seinni hluti fundarins er ætlaður undir spurningar og svör.

Rafhjólaklúbburinn efndi til svipaðs fundar í september um vegamál og var Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra í forsvari og opnaði m.a. á umræðuna um veggjöld. Sá fundur var fjölmennur, 60 til 70 manns, og var fréttaefni lengi á eftir.