-1.1 C
Selfoss
Home Fréttir Undirskriftasöfnun fyrir Tryggva Ingólfsson

Undirskriftasöfnun fyrir Tryggva Ingólfsson

0
Undirskriftasöfnun fyrir Tryggva Ingólfsson
Feðgarnir Finnur Bjarki og Tryggvi Ingólfsson.

Fyrir skömmu var sett af stað undirskriftasöfnun þar sem skorað er á sveitarstjórn Rangárþings eystra að finna lausn á búsetuúrræðum Tryggva Ingólfssonar á Hvolsvelli. Tryggvi lamaðist í slysi fyrir tólf árum og hefur verið búsettur á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Kirkjuhvoli í 11 ár. Hann fór í aðgerð á síðasta ári en átti ekki heimangegnt þar sem starfsfólk Kirkjuhvols kvaðst ekki geta tekið við honum. Hann hefur því þurft að búa á lungnadeild LSH í Fossvogi síðan.

„Pabbi minn er enn á Lungnadeild LSH í Fossvogi þrátt fyrir að vera útskrifaður þaðan þann 27. mars 2018. Það þarf svo sem ekki að orðlengja það að kostnaðurinn við veru hans þar er margfaldur,“ segir Finnur Bjarki sonur Tryggva.

Þann 17. maí 2018 var gefin út svohljóðandi yfirlýsing frá sveitarstjórn Rangáþings eystra:
„Á þessum tímapunkti eru ekki forsendur til þess að sjá um aðhlynningu og vistun umrædds einstaklings svo að öryggi hans verði tryggt. Hins vegar er stefnt að því að heimilið geti tekið við umönnun mannsins í framtíðinni“.

„Pabbi er ekki í verra ástandi en þegar hann kom á Kirkjhvol fyrir um 12 árum. Það þótti og þykir mikið afrek að lítið dvalar- og hjúkrunarheimili út á landi tæki svo viðamikið verkefni að sér, en það var að erlendri fyrirmynd með stuðningi frá Landlækni og endurhæfingardeild LSH Grensási. Þetta verkefni var leyst með miklum sóma í 11 ár, ekki hnökralaust en allt slíkt leyst með samtali og fundum þar til síðasta vor. Síðan þá hafa verið skoðaðir möguleikar og leit allt út fyrir að Lundur á Hellu gæti tekið á móti pabba með stuðningi HSU á Selfossi sem okkur leist vel á en virðist ekki ganga upp vegna mönnunar. Mikið hefur verið þrýsta á pabba að þyggja pláss á Droplaugarstöðum í Reykjavík en hann er Rangæingur og hefur aldrei búið í Reykjavík, auk þess sem sveitarstjóri Rangárþings eystra segir okkur að það sé markmiðið að koma pabba heim og að aðgerðaráætlun sé í gangi. Þess vegna óskum við fjölskyldan þess að kröftum sé beitt í þá áttina af öllum aðilum,“ segir Finnur Bjarki Tryggvason.

Hlekkur inn á undirskriftarlista:

http://listar.island.is/Stydjum/37?fbclid=IwAR213XP3hjIKzwASvzIUd7kM233HUa2keLD-yz33ypXJjWwZSaZaXk3n6MY