Úttekt á fjármálum, stjórnsýslu og rekstri Sveitarfélagsins Árborgar er lokið. Það var Haraldur Líndal Haraldsson, hagfræðingur sem stóð að úttektinni og gerð skýrslu um málefnið. Íbúafundur þar sem niðurstöður úttektarinnar verða kynntar mun fara fram á Hótel Selfossi mánudaginn 4. febrúar nk. kl. 20. Úttektin náði yfir stjórnsýslu, rekstur og fjármál Sveitarfélagsins Árborgar og fór fram að ósk núverandi bæjarstjórnar samkvæmt samningi sem samþykktur var á bæjarstjórnarfundi 17. október 2018.
Niðurstöðurnar, ásamt tillögum til úrbóta, verða gefnar út í skýrslu sem ætlað er að gefa góða mynd af stjórnsýslunni, fjármálum sveitarfélagsins, rekstri þess og einstakra stofnana. Áður en skýrslan verður gerð opinber verður hún kynnt bæjarfulltrúum, starfsfólki og íbúum.