3.9 C
Selfoss

Gaf Tónlistarskólanum gamla fiðlu

Vinsælast

Árið 1996 fóru hjónin Ísleifur Gíslason og Arndís Borgþórsdóttir til Prag í Tékkóslóvakíu (nú Tékkland) í heimsókn til vina sinna Þóris Gunnarssonar, ræðismanns Íslands í Prag, og Ingibjargar Jóhannsdóttur konu hans sem nú er látin. Þeir Ísleifur og Þórir urðu fimmtugir um þetta leyti eða með tíu daga millibili, Ísleifur 14. ágúst en Þórir 24. ágúst. Á afmæli Ísleifs gaf Þórir honum gamla fiðlu ásamt lélegum fiðlukassa í afmælisgjöf.

Ísleifur tók fiðluna með sér heim og einhvern veginn æxlaðist það þannig að dóttir hans kynntist Szymon Kuran og sagði honum frá fiðlunni. Szymon bað um að fá að skoða fiðluna og var með hana í láni um tíma. Hann hafði síðan samband við hjónin og vildi koma með hana heim til þeirra og spila nokkur lög, sem hann og gerði. Szymon sagði þetta sennilega vera 150—200 ára gamla fiðlu og að hún hefði einstaklega þýðan hljóm. Ísleifur fór með fiðluna til Jóns Marinós Jónssonar fiðlusmiðs og fékk hann til að líta á gripinn. Hann gat lítið sagt fleira en að fiðlan hefði sennilega verið smíðuð í Tékkóslóvakíu og væri kannski 200–300 þúsund króna virði.

Ísleifur sendi bæjarráði Hveragerðis bréf 9. janúar sl. þar sem hann segist hafa hugsað sér að gefa fiðluna til Tónlistarskóla Árnesinga. Skólinn geti þá lánað hana góðum upprennandi nemanda gegn loforði um ástundun og góða meðferð á filunni. Hann tók fram að kassinn væri kannski ónýtur þó sennilega mætti gera við hann í handavinnutíma.

Bæjarráð þakkaði Ísleifi rausnarlega gjöf og fól bæjarstjóra að koma fiðlunni til skólastjóra Tónlistarskóla Árnesinga en skólinn er rekinn af sveitarfélögum í sýslunni og þar með Hvergerðingum.

 

Nýjar fréttir