-6.6 C
Selfoss

Sala fráveitu Árborgar er glapræði

Vinsælast

Hinn 21. desember sl. birtist á heimasíðu Árborgar pistill eftir bæjarstjóra Árborgar þar sem hann rekur kosti þess að sveitarfélagið selji tæplega helmingshlut í fráveitu sveitarfélagsins. Í sjálfu sér er merkilegt að bæjarstjórinn skuli nota heimasíðu sveitarfélagsins til að setja fram slíkar hugleiðingar um mál sem ekki hafði verið rætt í bæjarráði eða bæjarstjórn. Alla jafna hefur fréttaflutningur frá bæjarráði og bæjarstjórn á heimasíðunni miðast við mál sem hafa hlotið einhverja umfjöllun eða afgreiðslu í bæjarráði eða bæjarstjórn, eða verið ákveðið af bæjarráði eða bæjarstjórn að setja í kynningu. Hér virðist vera um stefnubreytingu að ræða. Mögulega skiptir ekki lengur máli hvað bæjarráð eða bæjarstjórn ákveða.

Það er líka svolítið merkilegt, miðað við að það er ein af frumskyldum bæjarstjóra, að gæta hagsmuna sveitarfélagsins, að hann tiltekur einungis það sem hann sér sem kosti við verkefnið. Mögulegra galla við sölu á mikilvægum innviðum sveitarfélagsins er hvergi getið. Þess er t.d. hvergi getið hvaða verð hefur verið nefnt fyrir eignarhlutann, en það verð er mjög langt frá því að endurspegla raunverulegt virði fráveitu Árborgar. Í pistlinum er ekki velt upp hvaða verðmiði yrði settur á eignarhlutann, ef sveitarfélagið myndi leitast við að kaupa hann til baka eftir einhver ár.

Afar mikilvægt er fyrir sveitarfélög að eiga sjálf þá innviði sem skipta þjónustu við íbúana mestu máli. Nokkur sveitarfélög fóru nokkuð bratt í það fyrir um 15 árum síðan að selja mannvirki sín til félags sem var í eigu einkaaðila og viðkomandi sveitarfélaga, eða láta félagið standa að byggingu nýrra mannvirkja sem sveitarfélögin leigðu síðan. Var þar t.d. um að ræða skóla, leikskóla, íþróttamannvirki og skrifstofuhúsnæði. Flestir muna nú eflaust hvernig það fór og fyrir um tveimur árum tókst loks öllum sveitarfélögunum að losna út úr þessu ævintýri með ærnum tilkostnaði. Líklega eru allir sammála um að þetta var dæmi sem gekk ekki upp fyrir sveitarfélögin.

Ekkert hefur breyst sem gerir þennan kost fýsilegri nú. Meðal þeirra kosta sem bæjarstjóri nefnir er lækkun skuldabyrði. Á síðustu tveimur kjörtímabilum var unnið hörðum höndum að því að koma Sveitarfélaginu Árborg úr þeirri gjörgæslu sem það var komið í fjárhagslega. Það svigrúm sem nú hefur skapast er hægt að nota til nauðsynlegra fjárfestinga, en enn gildir það sem mikilvægt er að hafa að leiðarljósi – að forgangsraða og láta skynsemina ráða við fjárfestingar. Skýjaborgir eru ekki tímabærar.

Einnig er í pistlinum nefnd möguleg lægri arðsemiskrafa og að ávöxtunin rynni annars vegar til íbúanna í gegnum bæjarsjóð og hins vegar „í sjóði lífeyrisþega“. Það er afar merkilegt að þetta skuli talið til kosta. Í dag er staðan sú að ávöxtunin rennur öll til íbúanna í gegnum bæjarsjóð. Fráveitu Árborgar ber engin skylda til þess að sjá sjóðum lífeyrisþega fyrir fjármagnstekjum! Raunin er líka sú að Sveitarfélaginu Árborg hafa til þessa staðið til boða hagstæðari lánskjör, eða um 4%, sem er mun hagstæðara en sú 7–8% arðsemiskrafan sem hefur verið nefnd.

Í pistlinum er talað um bættan rekstur með „faglegu aðhaldi stjórnar“. Ef núverandi meirihluti bæjarstjórnar og bæjarstjóri treysta sér ekki til að halda utan um stjórn fráveitu Árborgar, sem er langt frá því að vera stærsta fyrirtæki í heimi, þá ættu viðkomandi aðilar að snúa sér að öðru.

Félagið Innviðir fjárfestingar slhf., sem hefur áhuga á kaupunum, er ekki bara í eigu lífeyrissjóða eins og látið hefur verið í veðri vaka. Svo sem fram kom á síðasta bæjarstjórnarfundi er það einnig í eigu hlutafélags sem er að fullu í eigu Heiðars Guðjónssonar. Í stjórn Innviða eru Heiðar Guðjónsson, Vilhjálmur Egilsson og Rútur Örn Birgisson. Tekjur fráveitu Árborgar koma frá íbúum og fasteignaeigendum í gegnum fasteignagjöld. Tekjurnar nema ríflega 300 milljónum króna á ári. Vilja íbúar Árborgar fela þessum aðilum umráð yfir helmingi teknanna? Þessir aðilar hafa a.m.k. ekki verið kjörnir til þess. Nefnt hefur verið að það séu skýrar reglur um hámark tekna svona félaga, í þessu tilviki hámark fráveitugjalds. Gaman væri að þær reglur væru lagðar fram. Það er engin trygging fyrir því að fráveitugjöld lækki með þessari ráðstöfun eins og látið hefur verið liggja að, þvert á móti gætu þau hækkað.

Gunnar Egilsson, bæjarfullrúi D-lista í Árborg.

Nýjar fréttir