-0.5 C
Selfoss
Home Fréttir Ný aðstaða tannlæknis í Vík í Mýrdal

Ný aðstaða tannlæknis í Vík í Mýrdal

0
Ný aðstaða tannlæknis í Vík í Mýrdal
Ný tannlæknastofa á Vík í Mýrdal.

Undanfarin ár hefur ekki verið föst aðstaða tannlækninga í Vík í Mýrdal. Á því verða breytingar en ný og fullkomin aðstaða til tannlækninga hefur verið sett upp á heilsugæslustöðinni í Vík.

„Við fórum í samstarf við Theódór Friðjónsson, tannlækni, sem leggur til búnað á stöðina og sinnir svo tannlæknaþjónustu á svæðinu,“ segir Helga Þorbergsdóttir, hjúkrunarstjóri á heilsugæslunni í Vík. Aðspurð segir Helga þetta mikinn feng fyrir samfélagið að fá þessa þjónustu heim í hérað. Tímapantanir fari fram í gegnum heilsugæslustöðina fyrir þá sem þurfa að nýta sér þjónustuna.

Dagskráin hafði samband við Theódór og spurði hann út í þjónustuna: „Þetta æxlaðist í raun þannig að ég var þarna í 6-7 ár eftir útskrift. Svo eignaðist ég börn og hafði minni tíma úr að spila, en langaði alltaf að koma aftur. Það kom svo tækifæri til þess og ég sló til. Þjónustan verður þannig að ég verð eina helgi í mánuði þar til eftirspurn eykst, þá verð ég oftar. Fyrir utan stólinn sem er kominn á heilsugæslustöðina, kem ég með allt það nýjasta með mér sem þarf að nota.“