Niðurstöður úr viðhorfskönnun Gallup sem mælir ánægju íbúa í tuttugu stærstu sveitarfélögum landsins var kynnt nýlega. Hveragerðisbær kom mjög vel út úr könnuninni eins og oft áður. Samkvæmt henni eru 97% íbúa ánægðir með sveitarfélagið sem stað til að búa á.
„Við erum afskaplega hamingjusöm með það að ánægja íbúa er mjög mikil hér í Hveragerði. Við sjáum það líka á því hversu margir eru að flytja hingað,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri.
„Við höfum tekið þátt í þessari könnun undanfarin ár og erum ánægð með að vera í hópi efstu sveitarfélaga. Núna ber svo við að Hveragerðisbær er orðinn efstur með mesta ánægju íbúa á landinu. Það er auðvitað stórkostlegt hrós til starfsmanna bæjarfélagsins sem greinilega eru að gera góða hluti. Við skorum hæst almennt þ.e. með þjónustu bæjarfélagsins. Síðan skorum við hæst allra hvað varðar gæði umhverfisins. Fólk er greinilega mjög ánægt með umhverfið hérna. Það er vel skiljanlegt því það er gríðarlega fallegt hérna í kring, fjölbreyttar gönguleiðir og skógræktarsvæði. Hveragerði er auðvitað landfræðilega svolítið sérstakt sveitarfélag. Það kúrir hérna inn til landsins með allar þessar gönguleiðir og þessi skemmtilegu svæði hérna í kring. Við skorum líka langhæst í þjónustu við eldra fólk. Alveg síðan við fórum að taka þátt í þessari könnun hefur þjónusta við eldra fólk verið efst hér í Hveragerði. Eins þjónusta við barnafjölskyldur og fleira,“ segir Aldís.