-1.5 C
Selfoss

Hvolpasveitarpeysa

Vinsælast

Hvolpasveitin nýtur mikilla vinsælda meðal leikskólabarna og þau vilja mörg eiga peysu með uppáhalds hvolpinum sínum. Þessi uppskrift er ætluð börnum 2ja- 6 ára. Peysan er prjónuð úr undurmjúkri Royal merinoull sem fæst í Hannyrðabúðinni á Selfossi. Þetta garn má þvo í þvottavél sem kemur sér vel þar sem börn eru. Grunnliturinn hér er rauður, en vel má prjóna peysuna í öðrum litum.

Stærðir: 2 – 4 – 6 ára

Efni:    2 – 3 – 4 dk rautt

1 dk af gulu, ljósgráu, dökkgráu og hvítu í allar stærðir

Prjónar no 3,5 og 4,5 – 60 cm, ermaprjónar no 3,5 og 4,5. Prjónamerki, prjónanælur.

Uppskrift:

Bolur: Fitjið upp 108 – 116 – 128 l á prjóna no 3,5 með dökk gráum lit og prjónið brugðning 2 sl, 2 br eina umferð. Skiptið yfir í rautt garn og prjónið áfram brugðning 2 umf, skiptið þá í gult og prjónið 2 umf, svo 2 rauðar, 2 gular og loks eina rauða umferð. Skiptið yfir á prjóna no 4,5 prjónið áfram slétt með rauðu garni en aukið í fyrstu umferð um 4 – 6 – 10 lykkjur jafnt yfir hringinn (alls 112 – 122 – 138 lykkjur á prjóninum). Prjónið þar til  bolurinn mælist 26 – 29 – 32 sm.  Setjið síðustu 3 l á undan á prjónanælu, prjónið 56 – 61 – 69 l setjið síðustu 3 l á nælu, prjónið 53 – 58 – 66 l. Leggið bolinn til hliðar og prjónið ermar.

Ermar: Fitjið upp 24 – 28 – 32 l með dökk gráum lit á prjóna no 3,5, prjónið brugðning 2 sl, 2 br, eina umferð með gráu, 2 umf rauðar, 2 gular og 2 rauðar. Skiptið yfir á prjóna no 4,5, aukið í fyrstu umferð um 2 l við upphaf og lok umferðar. Prjónið áfram slétt en aukið um 2 l á 5 umferða fresti 4 – 5 – 5 sinnum, svo á 6 umferða fresti þar til alls eru 46 – 50 – 54 l á prjóninum. Prjónið þar til ermi mælist 23 – 27 – 30 – sm. Setjið fyrstu 2 og síðustu 1 l umferðar á hjálparnælu. Prjónið aðra ermi eins.

Axlastykki: Sameinið nú bol og ermar á hringprjón no 4,5 og prjónið 1 – 2 – 3 umferðir með rauðu (192 – 210 – 234 l á prjóninum).

Prjónið því næst samkvæmt mynstri 1.  Prjónið 1 – 1 – 2 umf hvítar athugið að í stærðum 2 og 6 eru 2 l teknar saman 3 sinnum jafnt yfir umferðina, ekki er fækkað lykkjum  í stærð 4 (189 –  210 – 231 l á prjóninum).

Prjónið svo samkvæmt mynstri 2. Að því loknu eiga að vera 117 – 130 – 143 l eftir á prjóninum.

Prjónið samkvæmt mynstri 3 en takið 2 l saman 9 – 4 – 5 sinnum, jafnt yfir í fyrstu umferðinni (108 – 126 – 138 l á prjóninum). Að mynstri 3 loknu eiga að vera 72 – 84 – 92 l á prjóninum.

Skiptið nú yfir á prjóna no 3,5 prjónið eina umferð slétta og fækkið um leið um 12 – 14 -12 l jafnt yfir umferðina. Prjónið nú brugðning 2 sl, 2 br, 2 umf rauðar, 2 gular, 2 rauðar, 1 dökk gráa, fellið laust af með gráum lit.

Lykkjið saman undir höndum. Gangið frá endum, athugið að gott er að kljúfa endana í þrennt og ganga frá hverjum hluta sér, þá ber minna á þeim í fráganginum.

Skolið úr mildu sápuvatni og leggið til þerris.

Uppskrift: Þóra Þórarinsdóttir

Nýjar fréttir