1.1 C
Selfoss

Gullspretturinn á Laugarvatni

Vinsælast

Á Laugarvatni er ár hvert staðið fyrir hlaupi sem hefur frá fyrstu tíð verið kallað Gullspretturinn. Árið 1995 var haldin mikil listahátíð á Laugarvatni sem að komu rúmlega 100 listamenn. Það voru þær Alda Sigurðardóttir og Kristveig Halldórsdóttir sem stóðu fyrir henni og kölluðu viðburðinn Gullkistuna með vísan í hnjúk mikinn efst á Miðdalsfjalli sem blasir við frá Laugarvatni. Þær endurtóku síðan leikinn 10 árum síðar eða 2005 og þá datt þeim Grímu Guðmundsdóttur og Sigurði Halldórssyni í hug að standa fyrir hlaupi í kringum Laugarvatn í tengslum við hátíðina og kalla það Gullsprettinn. Það kallaði á nokkurn undirbúning og skipulag og komu ýmsir að því með þeim þetta fyrsta skipti.

Í fyrsta hlaupið mættu tæplega 50 manns og var ákveðið að halda þessu áfram. Erla Þorsteinsdóttir og Pálmi Hilmarsson bættust nú í fastan undirbúningshóp og hefur þessi hópur séð um hlaupið á hverju ári síðan þá með dyggri aðstoð heimamanna sem leggja töluverða vinnu í þetta á hlaupdegi.

Skemmst er frá því að segja að hlaupið óx mun hraðar en mönnum datt í hug í fyrstu. Undanfarin ár hefur sá fjöldi sem má hlaupa verið takmarkaður af tillitsemi við gróður og fuglalíf en ekki síður vegna þess að það hreinlega ræðst illa við að taka við fleirum.

Um 300 manns hafa tekið þátt árlega í nokkur ár og það er talsvert utanumhald ef allt á að ganga upp. Daginn fyrir hlaup er farið hringinn í kringum vatnið með stikur og hlaupaleiðin merkt vandlega til að allir fari nú sem næst þeirri leið sem til er ætlast. Hlaupið reynir töluvert á en vaða þarf yfir ár og mjúkar mýrar, vara sig á nautahópum eða hrossum og þá er mýið stundum erfitt þegar þannig viðrar, krían getur líka verið illskeytt þar sem hún er til staðar. En það koma allir brosandi í mark, það er bara eitthvað svo skemmtilegt við þetta og menn hjálpast að yfir erfiðustu hindranirnar.

Björgunarsveitin Ingunn hefur ávallt lagt til bát og mannskap á vatnið sem er þá tilbúinn hvenær sem er ef einhver misstígur sig eða gefst upp sem er nánast aldrei. Þá er hrært í ótalinn fjölda af rúgbrauðum sem bökuð eru í hvernum yfir nóttina og eru þá tilbúin, volg og fín þegar menn koma í mark. Á þau er best að setja vel af íslensku smjöri og reyktum silungi frá Útey sem er í boði líka. Aðgangur að Fontana er svo innifalinn í hlaupgjaldinu svo það fara allir sáttir og sælir heim að loknu hlaupi. Að kveldi hlaupdags er svo slegið upp grillveislu fyrir alla sem lögðu hönd á plóg við undirbúning, vinnu og frágang eftir hlaup. Góð stemning í þeim hóp enda samhentur, og það er alltaf gott að geta endað góðan dag öll saman og ræða hvað mátti betur fara og hvað heppnaðist vel.

Frá því strax á fyrsta ári þessa hlaups hefur allur ágóði sem eftir stendur þegar búið er að dekka kostnað farið í að styðja góð málefni innan sveitar á Laugarvatni og nágrenni. Öll vinna allra þeirra sem að hlaupinu standa eða koma til aðstoðar á hlaupdegi er sjálfboðavinna. Björgunarsveitin Ingunn hefur verið styrkt verulega undanfarin ár og þar að auki hafa krakkar sem farið hafa erlendis á íþróttamót fengið styrki og þannig mætti áfram telja. Síðast en ekki síst má nefna uppbyggingu á göngustígnum meðfram vatninu neðan við þorpið, en hann var tekinn verulega í gegn í sumar af þeim sem að hlaupinu standa. Mikil vinna en gefandi og skemmtileg í ágætis veðri í sumar þó ótrúlegt sé í allri þeirri rigningu sem þó var flesta daga í sumar eins og menn muna. Það er svo bara spennandi að takast á við næsta sprett sem verður eins og áður skömmu fyrir 17. júní.

Fyrir hönd Gullspretts

Pálmi Hilmarsson

Það er frjáls aðferð við að komast yfir vöðin, sumir synda.
Það er frjáls aðferð við að komast yfir vöðin, sumir synda.
Gullspretturinn stóð fyrir lagfæringum á göngustíg í sumar.
Gullspretturinn stóð fyrir lagfæringum á göngustíg í sumar.

Nýjar fréttir