3.9 C
Selfoss
Home Fréttir Vonda stjúpan

Vonda stjúpan

0
Vonda stjúpan
Svanhildur Ólafsdóttir, félagsráðgjafi MA og fjölskyldufræðingur.

Á notalegri stundu les foreldri söguna um vondu stjúpuna fyrir barnið sitt. Söguna um hvernig vonda stjúpan reyndi að losa sig við stjúpbarnið (eða börnin) og pabbinn „gat“ ekkert gert. Sagan endar yfirleitt á þann veg að vonda stjúpan hverfur úr lífi barnsins og það lifir hamingjusamt til æviloka!

Í raunveruleikanum upplifa mörg börn að vonda stjúpan sé til í alvörunni og hún sé einmitt á þeirra heimili. Þó sögurnar snúi oftar að stjúpmæðrum þá tala börn oft um að stjúpforeldrið hafi stolið foreldrinu frá þeim og það hafi allt orðið verra eftir að stjúpforeldrið kom inn í líf þeirra. Börn eru sett í stöðu sem þau hvorki kusu né höfðu val um að vera í. Kröfur eru settar á börnin að þau sýni stjúpforeldrum sínum tilfinningar sem þau jafnvel bera ekki til þeirra og að þau sýni þeim sömu hegðun og virðingu og þau sýna almennt sínum eigin foreldrum.

Stjúptengsl eru oft á tíðum mjög flókin tengsl. Foreldrar lenda oft í tilfinningavanda og upplifa samviskubit gagnvart barninu sínu þegar nýr maki er kominn inn í fjölskylduna. Á sama hátt geta foreldrar upplifað mikla afprýðisemi og jafnvel samkeppni þegar stjúpforeldri kemur inn í líf barnsins þeirra og ósjálfrátt fara foreldrar að berjast á móti því að barninu fari að þykja vænt um stjúpforeldrið.

Það getur verið vandasamt verk að setja saman mismunandi fjölskyldur sem koma úr ólíkum aðstæðum og með ólíkar væntingar. Allir reyna þó sitt besta og vona allt gangi vel en erfitt getur verið að takast á við ágreining þegar flækjustigið hækkar ofar öllu. Félagsráðgjafar hafa bæði menntun og þjálfun í að leiðbeina fjölskyldum í mismunandi aðstæðum og getur oft verið gæfuspor í stofnun stjúpfjölskyldna að leita ráðlegginga áður en haldið er af stað í skemmtilegt og vonandi gæfuríkt ferðalag.

Svanhildur Ólafsdóttir, félagsráðgjafi MA og fjölskyldufræðingur