-0.5 C
Selfoss
Home Fastir liðir Sunnlenski matgæðingurinn

Sunnlenski matgæðingurinn

0
Sunnlenski matgæðingurinn
Þorbjörn Jónsson, matgæðingur vikunnar.

Ég vil byrja á því að þakka Eyþóri kærlega fyrir þennan heiður.

Við á heimilinu höfum eldað þenna rétt í nokkuð mörg ár. Það sem þarf í brasið er eitt stykki nautalund (má vera hrossalund eða folaldalund), pipar, smjör til steikingar, klettasalat, parmesan, gott salt (flögusalt) og helst nokkrar tegundir af Dijon sinnepi.

Lundin er krydduð með pipar nokkuð hressilega og steikt á pönnu við mikinn hita. Allar hliðar á lundinni lokaðar. Kjötið tekið af pönnunni og smellt í ofninn við svona 180 gráður. Kjötið er ca. klárt um 53 gráður en látið bíða svo í 20 mínútur þá ætti kjarnhiti að vera um 57 gráður (medium rare).

Þegar kjötið er klárt er það sneitt í ca. fingurbreiðar sneiðar. Þegar sest er til matar er kjötið saltað, borið smá sinnep á, klettasalati dreift yfir og að endingu rifinn parmesan yfir allt saman.

Rétturinn er venjulega án nokkurs meðlætis nema það sem tiltekið er hér að ofan. En ef fólk vill hafa frekara meðlæti með réttinum mæli ég með rissotto með sólþurrkuðum tómötum.

Í minni útgáfu af rissotto þá þarf eftirfarandi hráefni: Ólívuolía, 350 gr. rissotto-grjón, 3-4 skallot- laukar fínsaxaðir, timian, saffran, nokkrir fínsaxaðir sólþurrkaðir tómatar, kjúklingasoð (kjúklingakraftur í ca. lítra af vatni) og að sjálfsögðu parmesan.

Olía í þokkalega stóran pott og skallot-laukurinn mýktur. Grjónunum hent í pottinn og leyft að steikjast aðeins. Timian bætt við eftir smekk og nokkur strá af saffran, kjúklingasoðinu svo hellt að litlum hluta yfir grjónin, hitinn lækkaður og suðunni leyft að koma upp. Þegar vökvinn er að gufa upp er bætt við meiri krafti og svo ferlið endurtekið þar til grjónin eru fullsoðinn. Sólþurrkuðu tómötunum er bætt við í lokin. Þegar grjónin eru svo borin fram er rifnum parmesan dreift yfir.

Ég skora á Ársæl Jónsson bróður minn að sýna okkur aðeins í eldhússkápana hjá sér í næstu viku.