-1.1 C
Selfoss
Home Fréttir Ég les stundum á furðulegustu stöðum

Ég les stundum á furðulegustu stöðum

0
Ég les stundum á furðulegustu stöðum
Steinunn Dís Öfjörð Sævarsdóttir, lestrarhestur vikunnar.

Steinunn Dís Sævarsdóttir, lestrarhestur Dagskrárinnar, er 9 ára og gengur í Melaskóla. Hún æfir á fiðlu, píanó og saxafón og svo spilar hún líka fótbolta og er á námskeiði í Myndlistarskólanum í Reykjavík. Steinunn á tvö lítil systkini. „Mér finnst mjög gaman að lesa og stærðfræði er uppáhalds fagið mitt. Mér finnst mjög gaman að ferðast og fara í útilegur. Ég er mikill fjallagarpur og gekk Laugaveginn með mömmu minni síðasta sumar þar sem ég kynntist mörgum öðrum skemmtilegum krökkum. Báðar ömmur mínar, Steingerður og Ásdís og afar mínir, Örlygur og Magnús og margar frænkur mínar og frændur búa á Selfossi og ég fer mjög oft þangað. Mamma og pabbi eru bæði frá Selfossi,“ segir Steinunn.

Hvaða bók ertu að lesa núna?
Ég er eiginlega að lesa þrjár bækur. Miðnæturgengið eftir David Walliams, Eragon eftir Christopher Paolini og Þitt eigið tímaferðalag eftir Ævar Þór Benediktsson. Eragon er ævintýrasaga þar sem stákur að nafni Eragon finnur dreka og temur hann. Það sem mér finnst svolítið skemmtilegt við bókina er að aftast í fyrstu bókinni eru orð á öðru tungumáli sem höfundurinn bjó sjálfur til. Þitt eigið tímaferðalag er bók þar sem maður flakkar á milli blaðsíðna og getur valið hvað gerist næst í sögunni. Þú getur valið tímabil og farið aftur í tímann og jafnvel svo langt að þú hitt fyrir risaeðlu. Svo getur þú líka farið alla leið út í geim. Ef þú vilt ekki fara svo langt getur þú líka ferðast afur um til dæmis þrjá klukkutíma eða jafnvel inn í framtíðina. Mér finnst það mjög skemmtilegt. Miðnæturgengið er öðruvísi og spennandi, frábrugðin öðrum bókum. Kaflaheitin í þeirri bók eru mjög skemmtileg, eins og til dæmis Skítt, skítt og rosa skítt, Gjörsamlega tröllaukið og Ba ba ba búmm. Sagan gerist á spítala og fjallar um fyndna og skemmtilega krakka sem dvelja þar. Aðalsögupersónan, Tommi, er í heimavistarskóla sem honum líður ekki vel í. Hann slasast, fær kúlu á höfuðið og lendir þar með inni á spítalanum.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?
Spennubækur, ævintýrabækur og fyndnar bækur. Í raun er ég alæta á bækur. Það eru helst barnabækur sem eru of léttar fyrir mig sem höfða síst til mín. Þrátt fyrir það hef ég gaman að af lesa fyrir yngri systkini mín þær bækur sem þeim þykja skemmtilegar.

Ertu alin upp við lestur?
Já, ég er alin upp við lestur. Mamma og pabbi hafa lesið fyrir mig á kvöldin frá því ég var lítil og þau gera það ennþá. Ég á margar uppáhaldsbækur. Allar David Walliams bækurnar, allar Harry Potter bækurnar og Eragon, svo ég nefni nokkrar.

Hvernig eru lestrarvenjur þínar?
Ég les oftast uppi í rúmi á kvöldin. Ég les stundum úti í búð, í skólanum, á ferðalögum og í raun á furðulegustu stöðum, til dæmis á veitingastöðum og í bílnum.

Áttu þér einhvern uppáhaldshöfund?
Já nokkra. David Walliams, J. K Rowling, Ævar Þór Benediktsson, Guðrúnu Helgadóttur, Gunnar Helgason, Christopher Paolini, Astrid Lindgren, Kristínu Steinsdóttur, Jo Nesbø, Gerði Kristnýju og Guðmund Ólafsson. Þessir höfundar skrifa allir skemmtilegar bækur.

Hefur bók rænt þig svefni?
Já, alls konar bækur. Ég verð oft það spennt að ég á erfitt með að leggja bókina frá mér og fara að sofa.

Hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?
Ég veit það ekki, fyndnar og spennandi ævintýrabækur. Ég myndi skapa galdraheim með hættulegum skógi þar sem allir fljúga á drekum. Í sögunni væru líka álfar sem tala leynitungumál og risastór galdraskóli.