4.5 C
Selfoss
Home Fréttir Sunnlenski matgæðingurinn

Sunnlenski matgæðingurinn

0
Sunnlenski matgæðingurinn
Sunnlenski matgæðingurinn Eyþór Frímannsson.

Ég þakka Steinari kærlega fyrir áskorunina.

Mig langar að deila með ykkur uppskrift að Beef Stroganoff sem hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér. Hún kemur frá mömmu og er einföld og góð. Þetta er fínn vetrarréttur sem gott er að ylja sér á þegar kalt er úti.

 

Stroganoff (fyrir fjóra)

Innihald:

800 g nautakjöt (meyrt, skorið í litla bita)

Smjör

Olía

1 laukur

200 g sveppir

6 msk. tómatsósa

1 dl vatn

3 dl rjómi (best að nota ekta rjóma)

Svartur pipar

2 tsk. paprikukrydd (má vera reykt fyrir meira bragð)

Salt

 

Aðferð:

Laukurinn er skorinn í smátt og sveppirnir í sneiðar.

Skvetta af olíu og góð klípa af smjöri sett á pönnu ásamt lauknum og sveppunum og látið malla við vægan hita þar til laukurinn er mjúkur.

Takið svo laukinn og sveppina af pönnunni og setjið í pott.

Smjörklípu og olíu er bætt aftur á pönnuna og kjötið brúnað við háan hita. Kryddað með nýmöluðum svörtum pipar.

Kjötinu er svo bætt í pottinn ásamt vatni, tómatsósu og paprikukryddi.

Hrærið vel saman meðan hitað er að suðu.

Þá er rjómanum bætt út í og hrært í af og til þar til suðan kemur upp aftur.

Svo er þetta látið malla við vægan hita þar til sósan hefur þykknað og tekið á sig  dökkrauðan lit. (30–40 mín. jafnvel lengur)

Smakkað til með salti og pipar í lokin.

 

Með þessum rétti finnst mér nauðsynlegt að hafa kartöflumús. Einnig er gott að hafa hvítlauksbrauð og ferskt salat.

 

Kartöflumús:

Passlegur skammtur af kartöflum soðinn í potti og afhýddur.

Góð smjörklípa brædd í potti og kartöflurnar stappaðar saman við.

Mjólk er svo bætt í pottinn, meðan hrært er, þar til mýslan nær heppilegri þykkt og hitastigi.

Smakkað til með salti, pipar og smá sykri.

 

Eins og ég er mikið fyrir mat þá er ég virkilega lítið spenntur fyrir eftirréttum. Ég mæli með rjúkandi heitum kaffibolla í eftirrétt. Fyrir þá sem eru ekki mikið fyrir hita má einnig skella í sig einum ísköldum.

 

Ég ætla að skora á Þorbjörn Jónsson að deila einhverju girnilegu með okkur í næsta blaði. Hann hefur mikinn matreiðslulosta og er óhræddur við að deila snilld sinni í eldhúsinu.