-10.5 C
Selfoss
Home Fréttir Öfgar eða jafnvægi?

Öfgar eða jafnvægi?

0
Öfgar eða jafnvægi?
Heilsumarkþjálfinn Gunna Stella.

Nú árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka orti séra Valdimar Briem. Í upphafi nýs árs er gott að líta til baka yfir farinn veg, yfir árið sem kemur aldrei til baka og meta hvað gekk vel og hvað gekk síður vel.

Í upphafi hvers árs set ég mér markmið. Ég vil að markmiðin séu mælanleg en um leið þroskandi en ekki óraunhæf. Það er algengt að í uppphafi nýs árs þegar flestir eru komnir með nóg af allskyns sælkeramat og sykri að fólk setji sér þau markmið að mæta í ræktina og fara á sérstakt mataræði. Margir kaupa sér kort í líkamrækt og ræktin fyllist af nýju fólki. En skyndilega, í lok febrúar eru margir þeirra búnir að gleyma því að þeir eigi kort í ræktina en halda þó áfram að borga mánaðargjaldið og verða sérstakir styrktaraðilar líkamsræktarstöðvarinnar.

Ég veit ekki hvort þú kannast við að vera í þessum hópi en ég kannast svo sannarlega við það. Ég er á þeirri skoðun að í öllu lífinu þá þurfi að vera ákveðið jafnvægi. Ég á að það til að verða öfgafull þegar kemur að hreyfingu, mataræði, áhugamálum eða öðru slíku og hef fundið það síðustu ár að jafnvægi hentar mér best. Þegar kemur að mataræði og hreyfingu þá hentar mér best að nota svokallaða 80/20 reglu. Það þýðir það að í 80% tilfellum borða ég mat sem nærir mig og byggir líkama minn upp en ef ég er boðin í veislu eða það koma jól þá get ég leyft mér eitthvað annað sem mig langar í en það þýðir ekki að ég lifi á því einu saman og snúi reglunni við. Þegar kemur að hreyfingu þá hentar mér best á þessum tímapunkti lífs míns að gera æfingar heima. Ég er með fullt hús af börnum og hef nóg á minni könnu og í stað þess að verða svekkt yfir að komast ekki í líkamsræktarstöðina þá hef ég agað mig í að gera æfingar heima. Ég tek stundum 15 mínútna æfingar og stundum 30 mínútna æfingar en þó svo það komi vika þar sem ég geri einungis 15 mínútna æfingar þá er það í góðu lagi. Því það er betra að stunda 15 mínútna æfingar reglulega en að taka skorpur og gera 30 mínútna æfingu nokkrum sinnum eina vikuna og hreyfa sig svo ekki neitt í nokkrar vikur.

Í janúar eru margir ef ekki allir komnir með nóg af eyðslu og magni hluta á heimilinu sínu. Fólk vill byrja að spara og minnka magn hluta sem taka of mikið pláss og of mikinn tíma frá manni. Ég þekki þess tilfinningu mjög vel og það er ástæðan fyrir því að ég byrjaði að einfalda lífið fyrir nokkrum árum síðan. Ég þrái að geta notað tíma minn og peninga í annað en að eignast nýjasta kertastjakann eða þurfa endalaust að koma hlutum fyrir á heimilinu. Ég hef spjallað við ótal marga einstaklinga sem upplifa einmitt þetta og það er ástæðan fyrir því að ég skapaði námskeiðið Einfaldara líf – Betra líf sem er rafrænt námskeið sem þú getur nálgast á heimasíðunni minni.  Þetta námskeið er þannig byggt upp að þú getur hlustað á kennslurnar og unnið verkefnin þegar þér hentar.

Þú getur skráð þig á þetta námskeið á heimasíðunni minni www.einfaldaralif.is og byrjað að hlusta á kennslurnar strax í dag.

Ég hvet þig til þess að byrja árið vel og muna að jafnvægi er alltaf betra en öfgafull markmið.

Kærleiksveðja,

Gunna Stella

IIN Heilsumarkþjálfi, B.ed