4.5 C
Selfoss

Villikettir á Suðurlandi

Vinsælast

Ása Nanna Mikkelssen, stjórnarkona í stjórn Villikatta á Suðurlandi.
Ása Nanna Mikkelssen, stjórnarkona í stjórn Villikatta á Suðurlandi.

Félagið Villikettir var stofnað árið 2014. Markmið félagsins er að hlúa að villi- og vergangsköttum á Íslandi og fækka þeim á mannúðlegan hátt með því að Fanga-Gelda-Skila (TNR) sem er alþjóðleg aðferð sem miðar að því að fækka villiköttum án þess að aflífa þá. En starfsemin snýst um fleira. Þannig bjargar félagið öllum kettlingum sem finnast úti, mannar þá og finnur þeim heimili. Og mikill tími og peningar fara í að hjúkra veikum vergangs- og villiköttum.

Suðurlandsdeildin var stofnuð í mars 2017 og hefur sífellt vaxið fiskur um hrygg. Auk deildarinnar uppi á landi er félagið með deild í Vestmannaeyjum. Árið 2018 var mjög annasamt hjá Villiköttum Suðurlandi. Á árinu fékk deildin uppi á landi 111 ketti í hendurnar (þar af 59 kettlinga). Kisurnar komu úr mörgum sveitarfélögum Suðurlands en Árborg vegur þar lang þyngst með samtals 42 ketti á síðastliðnu ári. Í Vestmannaeyjum hafa auk þess u.þ.b. 60 kettir fengið hjálp, frá því að sú deild var stofnuð í desember 2017.

Sjálfboðaliðum á Suðurlandi hefur sem betur fer farið fjölgandi. Allt þetta fólk reynir að hjálpa og sumir hafa lagt nótt við dag, oft við mjög erfiðar aðstæður. Svo þarf að sinna útigjöfum og gera skjól og sjálfboðaliðar hafa lagt heimili sín undir athvörf fyrir kisurnar. Það var því mikið fagnaðarefni þegar samningar náðust við Vestmannaeyjabæ og Hveragerði í október síðastliðnum. Þar með urðu Vestmannaeyjar og Hveragerði fjórða og fimmta sveitarfélag landsins til að gera samning við félagið Villiketti. Í kjölfarið fékk félagið lánað húsnæði á þessum stöðum, að vísu tímabundið í Hveragerði. En aðstaða fyrir kisurnar breytir miklu.

Ekkert af þessu gengi nema vegna framlaga velunnara og stuðningsaðila. Samstarf Villikatta við Dýralæknaþjónustu Suðurlands á Stuðlum er ómetanlegt.

Verum góð við kisurnar okkar. Tökum þær úr sambandi, örmerkjum, bólusetjum, ormahreinsum og skráum. Villi- og vergangskettir falla nefnilega ekki af himnum ofan.

 

 

Nýjar fréttir