2.8 C
Selfoss

Tíðarfar á landinu árið 2018

Vinsælast

Veðurstofa Íslands hefur sent frá sér ítarlega grein um tíðarfar á landinu fyrir árið 2018. Fram kemur að árið hafi verið „úrkomusamt og nokkuð hlýtt. Úrkoma var yfir meðallagi á nær öllu landinu og úrkomudagar óvenju margir bæði sunnan- og norðanlands. Sumarmánuðirnir voru svalir á suðvestanverðu landinu á meðan hlýtt var norðaustanlands. Sólarlítið var á suðvesturhluta landins á árinu og hafa ekki mælst eins fáar sólskinsstundir í Reykjavík á einu ári síðan 1992. Júní og júlí voru óvenju þungbúnir suðvestanlands. Hlýtt var síðustu tvo mánuði ársins. Vindur var í meðallagi á árinu.“ Hér að neðan gefur svo að líta lauslegt yfirlit yfir einstaka mánuði.

Lauslegt yfirlit um einstaka mánuði

Janúar

Veður var umhleypingasamt en tíð var þó nokkuð hagstæð miðað við árstíma. Hiti var víðast hvar yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en allsstaðar undir meðallagi síðustu tíu ára. Hálka þótti mikil og þrálát.

Febrúar

Febrúar var illviðra- og úrkomusamur. Vindhraði var vel yfir meðallagi og úrkoma mikil, einkum um landið sunnan- og vestanvert. Hiti var yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en aðeins undir meðallagi síðustu tíu ára á Suður- og Suðvesturlandi. Töluverðar truflanir voru á samgöngum.

Mars

Mars var mjög tvískiptur. Fyrri helmingur mánaðarins var fremur kaldur. Norðaustlægar áttir voru ríkjandi, nánast úrkomulaust var um landið sunnan- og vestanvert og sérlega sólríkt. Á meðan var töluverður snjór um landið norðan og austanvert. Seinni hluti mánaðarins var hlýrri og suðlægari áttir algengari. Mánuðurinn var hægviðrasamur og lítið um illviðri.

Apríl

Tíðarfar var nokkuð hagstætt í apríl. Hiti var vel ofan meðallags 1961 til 1990. Mánuðurinn var hægviðrasamur og lítið um hvassviðri. Austanáttir voru ríkjandi og fremur úrkomusamt austanlands.

Maí

Fremur svalt var í veðri maí um landið suðvestanvert á meðan hlýtt var á Norðaustur- og Austurlandi. Mjög hlýir dagar voru í lok mánaðar á Norðuausturlandi. Mánuðurinn var óvenju úrkomusamur, þá sérstaklega vestanlands. Ný mánaðarúrkomumet voru sett á nokkrum stöðvum í maí. Í Reykjavík mældist úrkoma alla daga mánaðarins og hefur ekki mælst eins mikil úrkoma þar frá upphafi mælinga.

Júní

Mánuðurinn var óvenju þungbúinn um landið sunnan- og vestanvert. Sólskinsstundir í Reykjavík hafa ekki mælst eins fáar í júnímánði síðan árið 1914. Úrkoma var mikil í þessum landshlutum og veður fremur svalt. Á austanverðu landinu var aftur á móti hlýtt og sólríkt. Hiti fór þar margoft yfir 20 stig. Sunnan- og suðvestanáttir voru ríkjandi.

Júlí

Mánuðurinn var hlýr og bjartur austanlands en fremur svalur og sérlega sólarlítill sunnan- og vestanlands. Úrkoma var yfir meðallagi um mest allt land og mánuðurinn var víða sá úrkomusamasti um áratugaskeið. Snögg hitabylgja gekk yfir landið þ. 29. þegar hitinn fór allvíða yfir 20 stig.

Ágúst

Ágúst var fremur svalur mánuður. Hiti var nærri meðallagi áranna 1961 til 1990 en nær allsstaðar undir meðallagi síðustu tíu ára, einna síst austanlands. Úrkoma var meiri en í meðallagi norðan- og austanlands en fremur sólríkt var á vesturhluta landsins.

September

September var fremur kaldur á landinu öllu. Hiti var vel undir meðallagi síðustu tíu ára en nærri meðallagi áranna 1961 til 1990. Norðanáttir voru tíðar um miðjan mánuðinn með bjartviðri suðvestanlands en úrkomu á Norðausturlandi.

Október

Október var fremur svalur, hiti var undir meðallagi síðustu tíu ára um land allt. Tíð var þó nokkuð hagstæð. Úrkoma var víðast hvar yfir meðallagi.

Nóvember

Nóvember var hlýr og hiti var yfir meðaltali á landinu öllu. Austanáttir voru ríkjandi í mánuðinum. Mikil hlýindi voru á landinu helgina 16. til 18. nóvember með sunnanátt og óvenju mikilli úrkomu á sunnan- og vestanverðu landinu. Í Reykjavík mældist úrkoman 83,2 mm á tveimur sólarhringum og er það mesta úrkoma sem mælst hefur á tveimur sólarhringum í Reykjavík. Norðaustan hvassviðri gekk yfir landið í lok mánaðar með þó nokkru fannfergi norðanlands. Snjódýpt mældist 75 cm á Akureyri þ. 30. sem er mesta snjódýpt sem mælst hefur þar í nóvembermánuði.

Desember

Óvenju hlýtt var í desember og var hiti vel yfir meðallagi í öllum landshlutum. Töluvert fannfergi var þó á Norðurlandi í byrjun mánaðar og mældist snjódýpt á Akureyri 105 cm þ. 3. sem er mesta snjódýpt sem mælst hefur þar í desembermánuði. Austlægar áttir voru ríkjandi í desember.

 

Greinin í heild sinni er að finna hér.

Nýjar fréttir