-6.7 C
Selfoss
Home Fréttir Flokkum meira

Flokkum meira

0
Flokkum meira
Guðbjörg Jónsdóttir, 3. sæti á lista Framsóknar og óháðra í Árborg.

Neyðarástand hefur skapast í sorpmálum í Árborg og raunar á öllu Suðurlandi. Sorpstöð Suðurlands hefur leitað að urðunarstað fyrir úrgang á Suðurlandi árum saman án árangurs. Undanfarið hefur sorpið sem fellur til í Árborg verið flutt í Álfsnes þar sem Sorpa hefur tekið á móti því til urðunar, en hefur nú tilkynnt að móttöku á því sé hætt. Möguleikarnir í stöðunni til skamms tíma eru ekki margir. Rætt hefur verið um að flytja hreinlega ruslið til útlanda til brennslu þar. Ljóst er að fyrirsjáanlegur aukinn kostnaður við förgun á úrgangi mun hafa bein efnahagsleg áhrif á íbúa sveitarfélagsins sem bera kostnað af sorphirðugjöldum.

Þessi alvarlega staða krefst þess að við, með samstilltu átaki, reynum allt sem við getum til að draga úr þeim úrgangi sem þarf að urða eða brenna og gerum enn betur í flokkun á sorpi. Ég vil hvetja íbúa til að vera meðvitaðir um þennan mikilvæga samfélagslega vanda og leggja áherslu á að auka flokkun og er markmiðið að lágmarka það sem nú fer í gráu tunnuna.

Unnið er að því af hálfu bæjaryfirvalda í Árborgar að flýta þeim möguleika að bjóða upp á þriðju tunnuna og hefja söfnun á lífrænum úrgangi í sveitarfélaginu. Móttaka er á gámasvæðinu fyrir gler og annan endurnýtanlegan úrgang sem auðvelt er að safna saman og skila á móttökustað svo eitthvað sé nefnt.

Til lengri tíma sé ég tækifæri í þessum erfiðu aðstæðum og hvet bæjarstjórn Árborgar til að hafa frumkvæði í þessum málum og skoða kosti þess að koma upp sorpbrennslu hér á svæðinu. Það er einkum tvennt sem vinnst með því, annars vegar að draga úr kolefnisspori við flutning á sorpi og hins vegar að þarna væri tækifæri á að beisla auðfenginn orkugjafa sem m.a. væri hægt að nýta til að hita upp vatn fyrir hitaveitu.