-0.5 C
Selfoss
Home Fréttir Framkvæmdir við Reykjaveg að hefjast

Framkvæmdir við Reykjaveg að hefjast

0
Framkvæmdir við Reykjaveg að hefjast
Mynd úr safni. Tengist fréttinni ekki beint.

Opnuð hafa verið tilboð í breikkun og endurgerð Reykjavegar (355) í Bláskógabyggð. Heimamenn í Bláskógabyggð hafa lengi barist fyrir endurgerð vegarins. Helgi Kjartansson, oddviti Bláskógabyggðar segir í samtali við Dagskrána: „Baráttan fyrir bættum vegi hefur staðið frá því fyrir síðustu aldamót. Reykjavegur tengir saman þéttbýlistaðina Reykholt – Laugarvatn og var einn af forsendum og röksemdum fyrir sameiningu sveitarfélaganna sem mynduðu Bláskógabyggð á sínum tíma“.

Í mörg ár hefur staðið til að fara í endurgerð á veginum, en ítrekað hefur útboði verið frestað og ýmsar ástæður legið þar að baki. Umferð um Reykjaveginn hefur aukist mikið síðustu ár. Ástand vegarins hefur verið afleitt og hefur á engan hátt borið þá umferð sem um veginn hefur farið.

Í samtali við Helga kemur fram að fyrir tæpu ári hafi sveitarstjórn Bláskógabyggðar boðið m.a. þingmönnum kjördæmisins og fulltrúum Vegagerðarinnar í ferð um helstu stofnvegi sveitarfélagsins. Meðal annars var farið um Reykjaveginn og ástand hans skoðað. Helgi segir enn fremur: „Ljóst er að heimamenn í Bláskógabyggð fagna mjög þessari framkvæmd enda um mjög þarfa samgöngubót að ræða.“

Lengd verksins auk tengivega er 8 km. Innifalið í verkinu er einnig efnisvinnsla í námum, ræsalögn, girðingarvinna, útlögn klæðingar og bygging nýrrar 20 m langrar eftirspenntrar brúar yfir Fullsæl.

Fyrsta áfanga verksins (Áfangi 1 – 3,5 km fullgerður vegur ) skal ljúka fyrir 1. september 2019. Verkinu skal vera að fullu lokið 1. september 2020. Lægsta tilboð í verkið áttu Borgarvirki ehf. og GT verktakar ehf., Hafnarfirði. Tilboð þeirra hljóðaði upp á 535 milljónir króna og var 88,5% af áætluðum kostnaði.